Í kvöld fékkst það á hreint að deildarmeistarar Grindavíkur og bikarmeistarar Stjörnunnar munu leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild karla þetta tímabilið. Það vantar ekki kjötið á beinin í þessari úrslitarimmu og hafa liðin stór og stæðileg horn í síðu hvors annars.
Á síðustu leiktíð sendi Grindavík Stjörnuna í sumarfrí í undanúrslitum en sú rimma var svakaleg og lauk á vægast sagt hádramatískum nótum í Ásgarði. Stjarnan kvittaði svo fyrir þann slag með því að verða bikarmeistari með góðum sigri á Grindavík í bikarúrslitum. Sverrir Þór og Teitur þurfa því engar fjallræður til þess að kveikja bál í sínum mönnum fyrir komandi úrslitarimmu.
Grindvíkingar hafa farið umtalsvert oftar í úrslit heldur en Stjarnan. Fyrsta mæting hjá gulum í úrslitaeinvígi var árið 1994 þegar liðið lá 3-2 í frumraun sinni í úrslitum gegn Njarðvík. Reyndar urðu árin fjögur í röð þar sem Grindavík lék til úrslita, árið 1994 vann Njarðvík og aftur árið 1995 en árið 1996 hafðist það að landa þeim stóra með 4-2 sigri á Keflavík í úrslitum. Því skal haldið til haga í sjötta leiknum átti sér stað svakalegasta troðsla Íslandssögunnar (þú fyrirgefur okkur Kristófer Acox) þegar Rodney Dobart hóf sig á loft. Í ár eru Grindvíkingar svo að mæta í níunda sinn í úrslit, liðið hefur í tvígang orðið Íslandsmeistari en sex sinnum mátt sætta sig við silfrið.
Stjarnan lék til úrslita í fyrsta sinn árið 2011 og tapaði þá 3-1 gegn KR. Garðbæingar eru því að fara í úrslit í annað sinn á þremur árum og í bæði skiptin undir stjórn Teits Örlygssonar. Teitur hefur tvívegis gert liðið að bikarmeisturum og fær hann nú sitt annað tækifæri á þeim stóra.
Grindvíkingar leika til úrslita annað árið í röð en síðasta liðið sem lék til úrslita tvö ár í röð var Njarðvík árið 2006 þegar liðið varð Íslandsmeistari gegn Skallagrím og svo 2007 þegar það tapaði gegn KR.
Aðeins sex félög hafa orðið Íslandsmeistarar síðan úrslitakeppnin var tekin upp árið 1984 en þau eru Njarðvík, Keflavík, KR, Grindavík, Haukar og Snæfell. Annað hvort verður þá Grindavík Íslandsmeistari í þriðja sinn í sögu félagsins þetta árið eða nýtt nafn kemur á Sindra-Stáls bikarinn margfræga. Eitt er þó víst, þessi úrslit verða rjómalöguð og Grindvíkingar hafa heimaleikjaréttinn í seríunni.
Dagskrá úrslitanna 2013:
Leikur 1 Grindavík-Stjarnan kl. 19.15 miðvikudaginn 17. apríl
Leikur 2 Stjarnan-Grindavík kl. 19.15 föstudaginn 19. apríl
Leikur 3 Grindavík-Stjarnan kl. 19.15 mánudagur 22. apríl
Leikur 4 Stjarnan-Grindavík kl. 19.15 fimmtudagur 25. apríl
Leikur 5 Grindavík-Stjarnan kl. 19.15 sunnudagur 28. apríl