Einhvern veginn finnst mér langt, langt, langt síðan leikið hefur verið um toppsætið í Dominósdeildinni í TM höllinni í Keflavík en það má vera að það sé bara öfund því enn lengra sé síðan slíkur slagur hefur farið fram í Ljónagryfjunni minni. Hvers vegna er ekki enn komið „fyrirtækja-hallarnafn“ á íþróttahúsið í Njarðvík eins og alls staðar annars staðar?
Vinir mínir Keflvíkingar njóta þess að hafa komið öllum á óvart með frammistöðu sinni í það sem af er vetri. Þeir sem þekktu til árangursins af fyrra samstarfi Sigga Ingimundar og Einars Einars máttu þó vita að þeir myndu tefla fram hófsömu, varkáru og „kurteisu“ Keflavíkurliði sem uppfyllti skilyrði orðháksins Kidda Gunn „Keflavík er alltaf Keflavík í Keflavík“. Engan hefði þó órað fyrir því að Reggie Dupree myndi stimpla sig inn sem nákvæmasta þriggja stiga skytta deildarinnar [60% nýting]. Held ég að ansi margir stjórnarmenn úrvalsdeildarfélaga séu búnir að naga sig í gegnum handarbökin yfir því að hafa ekki í.þ.m. „tékkað á“ mr. Dupree í sumar. Ég er alla vega hárlaus á mínum handabökum og með viðvarandi yfirborðssár. Reggie hefur spilað „Loga Gunnars vörn“ á leikstjórnendur andstæðinganna og skilað 12, 5 stigum í hús á rúmlega 26 mínútum. Það er hreinlega „Gauja Skúla“ bragur á stökkskotunum hans. Að öðrum ólöstuðum er Valur Orri Valsson þó besta „gjöfin“ til körfuboltans á Suðurnesjum þetta árið. Hann birtist okkur körfuboltaunnendum nú sem fullþroskaður og ábyrgur leikstjórnandi [í fyrsta sinni] eftir að hafa stigið fram 14-15 ára sem efnilegur leikmaður en í skugga föður síns, mesta skorara Íslandssögunnar. Hann hefur alla þræði Keflavíkurliðsins í sínum höndum þrátt fyrir hafa sér við hlið sprengjuvörpurnar Gumma Jóns og Magga Gunn. Þeir Gummi og Maggi hafa að sama skapi komið betur undan sumri en oft áður. Ofurumbinn Tommi Tomm skilaði Keflvíkingum flottum sóknarmanni í hús með Earl Brown jr. sem um margt minnir á Michael Craion, núverandi KR-ing. Keflvíkingar státa af sex leikmönnum sem skora meira en 10 stig á leik, með Magga Gunnars í hlutverki nokkurs konar „designated hitter“ í anda amerísku MLB hafnarboltadeildarinnar. Samlíking við „punt returner“ úr ameríska NFL fótboltanum hefði alveg misst marks hvað Magga varðar.
Vesturbæjarveldið KR hefur haft tögl og haldir í íslenskum körfubolta síðustu árin og nú er svo komið að þeir telja sig ekki þurfa að byrja að æfa saman fyrr en í september og hafa dundað sér við að klára suma leikina með „einari“ þar sem meiri athygli hefur verið á þá leikmenn sem sitja spariklæddir en þá í búningum. Synd væri að segja að fjölmiðlar hafi ofmetið KR-liðið fyrir tímabilið.
Taldist mér til, þegar ég horfði á frumraun hins bráðskemmtilega þáttar „Körfuboltakvöld“ á Stöð 2, að sérfræðingarnir þar hefðu valið 7 af bestu 10 leikmönnum deildarinnar úr liðinu [ég taldi Finn Atla KR-ing það kvöldið]. Ég held samt að skýrari yfirlýsingu um að tíma Pavels í stöðu leikstjórnanda væri lokið verði vart fundin en sú sem fólst í því að fá Ægir Þór Steinþórsson til liðsins. Nú fyrir skömmu, þegar mínir menn {Njarðvíkingar] mættu KR, þá bættu þeir um betur og tóku leikinn ekki bara með „einari“ heldur þeirri vinstri líka [takk Þórir]. KR-ingar eru einnig með sex leikmenn sem skila tíu stigum eða meira og koma 9,5 stig Björns Kristjánsson því til viðbótar.
Hvorugt þessara liða er á toppnum fyrir tilviljum. Þau spila hraðari bolta en flest hin liðin ráða við, eru rútíneruð í sóknaraðgerðum og vel innstillt á eigin styrkleika. Siggi Ingimundar er sérfræðingur í því að „fela“ takmarkaða varnarmenn og fær alls ekki nægt hrós fyrir. Hafi vinur minn Sævar Sævarsson einhvern tímann fengið mínútur af bekknum hjá Sigga er hann tvímælalaust „poster child“ um þessa snilli þjálfarans. Hvernig Sigga tekst upp við að finna leiðir til verjast hinum fjölmörgu sóknarvopnum Vesturbæinga verður lykillinn að leiknum. Þá verður forvitnilegt að sjá hvernig slagurinn milli Michaels Craion og Earl Brown jr. þróast því Mr. Brown þarf að fara varlega með boltann í kringum Craion. Það er samt alveg ljóst að KR-ingar geta ekki mætt í TM höllina og ætlað sér að taka stigin í boði með „einari.“
Þessi Njarðvíkingur spáir Keflvíkingum hávaðasömum og villtum 110-103 sigri í kvöld og hrósar Nettó í Reykjanesbæ enn og aftur fyrir að bjóða á körfuboltaleiki í bæjarfélaginu fátæka sem hýsir bæði Keflavík og Njarðvík. Það er ekkert skemmtilegra en að spila fyrir fram fulla höll af hógværum Keflvíkingum og uppsnúnum vesturbæjartreflum.
Njarðvíkurkveðja, Jói Kristbjörns