Selfossliðið fór austur í Hornafjörð í gær og mætti Sindra í fyrstu umferð úrslitakeppni 1. deildar karla. Eftir jafnan leik gerðu hinir reyndu atvinnumenn Sindra nóg á lokakaflanum til að vinna leikinn allþægilega, 77-69, og taka forystuna í „einvíginu“. Liðin mætast aftur í Gjánni á Selfossi næstkomandi þriðjudag, 11. maí kl. 19:15.
Selfoss var yfir mestallan fyrri hálfleik, svona 5 stigum á góðum kafla fram undir miðjan annan leikhluta, bitamunur en ekki fjár, og staðan í hálfleik 42-44. Þriðji hluti var hnífjafn, liðin skiptust á forystu en undir lok hans var Sindri 4 stigum yfir og hafði yfirhöndina þaðan í frá, mest munaði 12 stigum en niðurstaðan 8 stiga sigur.
Eins og tölfræðiskýrslan ber með sér halda tveir menn Sindraliðinu á floti, báðir mjög góðir. Hinn gamalreyndi Gerald Robinson, sem á góðan feril að baki í Dominósdeildinni með ýmsum liðum, nýtti alla sína hæfileika og leikvit til hins ýtrasta og gerði Selfyssingum lífið leitt inni í teignum með 29 stigum, 9 fráköstum, 8 fiskuðum villum og 27 framlagspunktum. Þetta á hann mikið því að þakka að Sindri hefur á að skipa afar góðum leikstjórnanda, Spánverjanum Gerard Baeza, sem gerir allt rétt sem leikstjórnandi á að gera, stjórnar liðinu, matar félaga sína, skilur aðstæður rétt á hverjum tíma og hefur augu í hnakkanum – og skorar sjálfur þegar á þarf að halda, ýmist af þriggjastigafæri eða með mjúkum og fallegum hreyfingum í gegnumbrotum. Hann skilaði 18 stigum, 8 stoðsendingum, 4 stolnum og 22 í framlag (16 +/-) . Þessir tveir menn draga að sér mikla athygli og orku í varnarleik andstæðinganna og þá er ekki ónýtt að vera með þriðja hjól undir vagninn, Króatann Genjac sem hirðir upp molana við hringinn og treður boltanum ofan í (12 stig, 11 frk.) og það fjórða og fimmta í Gísla Þórarni og Tómasi Orra sem setja ofan í sín skot, þó fá séu.
Segja má að lið Sindra sé undir spænskri stjórn inni á vellinum, líkt og Hamar, og tala megi um „Baeza-áhrifin“, því lykillinn að því að vinna Sindra er að hægja á honum og trufla boðskipti hans við Robinson inni í teignum.
Eftir góða frammistöðu í fyrri hálfleik datt botninn úr Selfyssingum í þeim seinni. Leikmönnum var bara fyrirmunað að hitta í körfuna. Það var ekki varnarleik Sindra að kenna, því liðið fékk mikið af opnum skotum.
Leikurinn undirstrikaði hið sveiflukennda gengi 18-19 ára leikmannanna, og sem dæmi má nefna að Sveini Búa (6 stig, 9 frk.) var hrósað verðskuldað fyrir góða skotnýtingu í síðasta leik en var núna 0/6 í þristum. Kennedy (7 stig, 8 frk). var sömuleiðis ekki svipur hjá sjón í gær í sóknarleiknum og Kristijan 1/9 í þristum, þó hann gerði vel að öðru leyti. Terrance var með 19 stig, 6 fráköst og 3 stolna bolta, en hans hlutverk er erfitt undir körfunum, gegn sér hávaxnari leikmönnum, þegar ógnin fyrir utan er lítil sem engin. Arnór Bjarki (12 stig, 3 frk.) og Gunnar Steinþórsson (8 stig) björguðu því sem bjargað varð til að þriggjastiganýtingin var þó ekki enn slakari en 25% (1/17, eða 5,8%, að þeim frátöldum!!!).
Það er Selfossliðinu til hughreystingar að þrátt fyrir þessa þurrð í skotum utan af velli í seinni hlutanum var það „inni í leiknum“ fram á síðustu mínútu. Með því að skerpa á ákveðnum áherslum í varnarleiknum og nýta skotfærin með eðlilegum hætti er liðið í dauðafæri að vinna Sindra á heimavelli á þriðjudaginn.
Það væri gaman ef stuðningsmenn létu sig nú ekki vanta á pallana, í þessum fyrsta heimaleik í úrslitakeppni í langan tíma, og hugsanlega síðasta heimaleik tímabilsins. Strákarnir eiga það alveg skilið, því þrátt fyrir sveiflukennda frammistöðu og misjafnt gengi, þá leggja þeir sig alla fram og spila fjandi skemmtilegan bolta, þegar sá gállinn er á þeim.
Umfjöllun / Selfoss Karfa – Gylfi Þorkelsson