Njarðvík lagði Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita Bónus deildar kvenna, 72-89.
Njarðvík því komnar með 2-0 forystu í einvíginu, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit.
Leikur kvöldsins var nokkuð einstefna í þeim skilningi að gestirnir úr Njarðvík leiddu frá byrjun til enda. Mestur var munurinn 15 stig í fyrri hálfleiknum, en í upphafi þess seinni ná heimakonur að vinna forskotið niður og gera þetta að leik fyrir lokaleikhlutann, 57-61. Í þeim fjórða nær Njarðvík hinsvegar aftur að bæta í og er sigur þeirra aldrei spurning á lokamínútunum, 72-89.
Bestar í liði heimakvenna í kvöld voru Denia Davis Stewart með 12 stig, 16 fráköst og Dilja Ögn Lárusdóttir með 19 stig og 9 stoðsendingar.
Fyrir Njarðvík var Brittany Dinkins atkvæðamest með 25 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá skilaði Emilie Hesseldal 16 stigum, 8 fráköstum og 7 stoðsendingum.
Með sigri í næsta leik getur Njarðvík tryggt sig áfram í undanúrslitin, en hann fer fram á heimavelli þeirra í IceMar höllinni komandi miðvikudag 9. apríl.