spot_img
HomeFréttirEinstefna í fjórða og Keflavík í úrslit

Einstefna í fjórða og Keflavík í úrslit

 Deildar- og bikarmeistarar Keflavíkur eru komnir í úrslit og mæta þar KR í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki. Keflavík lagði Val 78-70 í Toyota-höllinni í kvöld og fóru Keflvíkingar mikinn í fjórða leikhluta sem þær unnu 34-16! Valskonur lentu í villuvandræðum sem reyndust þeim dýrkeypt og að sama skapi var Bryndís Guðmundsdóttir með magnaða frammistöðu og tvo rándýra þrista þegar mest á reyndi. Bryndís lauk leik með 24 stig og 10 fráköst í liði Keflavíkur en stigahæst í liði Vals var Jaleesa Butler með 21 stig og 13 fráköst.
 Keflvíkingar byrjuðu betur og komust í 4-0 og síðar í 10-5. Bryndís Guðmundsdóttir var beitt í Keflavíkurliðinu til að byrja með og setti öll fjögur skotin sín niður í fyrsta leikhluta. Valskonur náðu að jafna metin í 16-16 en Pálína Gunnlaugsdóttir gerði lokakörfu leikhlutans um leið og tíminn rann út svo Keflavík leiddi 18-16 eftir fyrstu tíu mínúturnar og maður hefði haldið að þær færu því með byr undir báða vængi inn í annan leikhluta.
 
Flautukarfa Pálínu hafði önnur áhrif því Valur byrjaði annan leikhluta 5-0 og komst í 18-21. Rétt eins og í fyrsta leikhluta vildi lítið niður framan af og varnirnar í aðalhlutverki en svo losnaði aðeins um. Keflavík komst í 29-21 eftir þrist en Valur lét ekki stinga sig af og minnkaði metin í 33-30 fyrir hálfleik.
 
Hlíðarendakonur mættu grimmar inn í síðari hálfleikinn og opnuðu hann með 7-0 áhlaupi og komust í 33-37. Pálína færði Keflvíkinga nær með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 38-39. Jafnt var á flestum tölum næstu augnablikin en í stöðunni 43-43 tók Valur 10-1 sprett og leiddu gestirnir 44-53.
 
Í upphafi fjórða leikhluta urðu Valsmenn fyrir áfalli þegar Kristrún Sigurjónsdóttir fékk sína fimmtu villu og kvaddi hún leikinn með 12 stig og 6 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir mætti svo galvösk með tvo dýra þrista og minnkaði muninn í 56-59 og hleypti nýju lífi í Keflvíkinga.
 
Unnur Lára hvarf einnig af velli með fimm villur í liði Vals og róðurinn þyngdist gegn Keflvíkingum sem voru komnir með blóð á tennurnar. Pálína jafnaði metin 62-62 og litu Keflvíkingar ekki við eftir það og unnu lokasprettinn 16-8. Stór þristur frá Pálínu kom Keflavík í 67-64 og þegar vindurinn blæs í segl Keflavíkur í Toyota-höllinni eiga gestaliðin ekki von á góðu, lokatölur 78-70.
 
Bryndís Guðmundsdóttir var eins og áður segir fremst meðal jafningja í liði Keflavíkur með 24 stig og 10 fráköst og Pálína Gunnlaugsdóttir bætti við 20 stigum, 9 fráköstum og 5 stoðsendingum. Hjá Val var Jaleesa Butler með 21 stig og 13 fráköst og Ragna Margrét Brynjarsdóttir gerði 14 stig og tók 15 fráköst.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -