spot_img
HomeFréttirEinstefna í Dalhúsum

Einstefna í Dalhúsum

Snæfell kjöldró botnlið Fjölnis í Domino´s deild kvenna í kvöld. Lokatölur 47-82 í Dalhúsum. Gestirnir úr Stykkishólmi tóku forystuna snemma í leik sem var aldrei spennandi. Hildur Sigurðardóttir fór fyrir Hólmurum með 19 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en hjá Fjölni var Brittney Jones með 18 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
Snæfell gerði sjö fyrstu stigin í Dalhúsum áður en heimakonur komust á blað. Strax frá fyrstu mínútu var þetta áreynslulaust hjá gestunum á meðan Fjölniskonur virkuðu flatar og hugmyndasnauðar í sínum sóknaraðgerðum. Varnarleikur Fjölnis var ekki upp á marga fiska og Snæfell leiddi 13-25 að loknum fyrsta leikhluta en það var Brittney Jones sem klóraði þar smá í bakkann fyrir Fjölni með flautuþrist.
 
Áfram hélt andleysið hjá Fjölni í öðrum leikhluta og þó heimakonur reyndu fyrir sér í svæðisvörn hafði það lítið að segja gegn Hólmurum. Gular réðu á engan hátt við Kieraah Marlow sem fór upp að körfunni þegar hana lysti en hún var með 18 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar í kvöld. Staðan í leikhléi var 25-47 Snæfell í vil þar sem Marlow var með 14 stig og Hildur Björg 13. Hjá Fjölni var Brittney með 14 og Fanney Lind 5.
 
Snæfell opnaði síðari hálfleik 3-10 og engin batamerki að sjá á Fjölni svo ekki leið á löngu uns bæði lið fóru að gefa lítt reyndari leikmönnum færi á að spreyta sig. Staðan var 38-73 að loknum þriðja leikhluta þar sem Rósa Kristín Indriðadóttir lokaði leikhlutanum með þrist fyrir Snæfell.
 
Fjórði leikhluti var í raun bara bið eftir því að leiktíminn rynni út og undirritaður hálfpartinn gapti yfir andleysi Fjölnis því frammistaða gulra í kvöld bar þess ekki vott að liðið væri að berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni. Að sama skapi voru Snæfellingar beittir og þó, eins og marg oft hefur verið rætt, liðið sé með þunnan hóp þá er hann gríðarlega sterkur. Leikmenn eins og Marlow, Hildur Sig og Hildur Björg og Alda eru bakbeinið í hópnum og eru jafnvel enn hættulegri þegar leikmenn eins og Rósa Kristín taka sínar rispur.
 
 
Myndir og umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -