spot_img
HomeFréttirEins stigs sigur Fjölnis á Gnúpverjum

Eins stigs sigur Fjölnis á Gnúpverjum

Úrslitin réðust á lokamínútunni þegar Fjölnir tók á móti Gnúpverjum í 1. deild karla í kvöld. Eftir jafnan og skemmtilegan fyrri hálfleik sigu Gnúpverjar fram úr í þriðja leikhluta og náðu mest 17 stiga forystu. En með góðum kafla í lokafjórðungnum náði Fjölnir að jafna þegar um 3 mínútur voru til leiksloka og tryggðu sér sigurinn af vítalínunni á lokasekúndum leiksins, 92-91. 

Þáttaskil
Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að leiða leikinn, hélt Fjölnir til klefa með þriggja stiga forystu. Fyrstu stig seinni hálfleiks voru Fjölnis og munurinn kominn í 5 stig. Þá kviknaði á Gnúpverjum sem köstuðu sér á eftir öllum lausum boltum og gáfu Fjölni engan frið. Fjölnismenn virkuðu ráðalausir í sókninni á þessum tímapunkti og nýttu illa þau skot sem þeir fengu á meðan Gnúpverjar léku við hvern sinn fingur. Gestirnir unnu leikhlutann með 15 stigum og leiddu því fyrir lokafjórðunginn með 12 stigum.

Leikmenn Fjölnis mættu einbeittari til leiks í lokafjórðunginn en áttu í erfiðleikum með að stöðva Everage Richardson sem skoraði fyrstu 7 stig Gnúpverja í fjórðungnum og endaði með 45 stig í kvöld. Gnúpverjar náðu 17 stiga forystu snemma í leikhlutanum áður en Fjölnismenn snéru spilunum við, hertu á varnarleiknum, sköpuðu sér betri færi í sókninni og nýttu skot sín betur.

Samuel Prescott Jr. jafnaði leikinn fyrir Fjölni í stöðunni 78-78 og við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem liðin skiptust á forystunni. Þegar 6 sekúndur voru til leiksloka, í stöðunni 91-91, geigar Prescott á skoti fyrir Fjölni en eftir baráttu undir körfunni nær Rafn Kristján Kristjánsson boltanum og sækir villu. Hann fær tvö víti, fyrra skotið geigar en hann setur síðara skotið og Fjölnir því komnir með eins stigs forystu. Gnúpverjar höfðu 3 sekúndur til að koma sér í sókn, skora og tryggja sér sigurinn en þeir misstu boltann útaf og eftirleikurinn því nokkuð auðveldur fyrir Fjölni sem tryggði sér tvö stig í kvöld.  

Bestu leikmenn
Atkvæðamestur í liði Fjölnis var Samuel Prescott Jr. sem lauk leik með 37 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar á 40 mínútum. Þá skoraði Hlynur Logi Ingólfsson 19 stig og tók 6 fráköst og Rafn Kristján Kristjánsson og Sigvaldi Eggertsson skoruðu 11 stig hvor.

Hjá Gnjúpverjum var Everage Lee Richardson stigahæstur með 45 stig auk þess að taka 5 fráköst. Þá skoraði Þórir Sigvaldason 12 stig fyrir Gnúpverja og Garðar Pálmi Bjarnason, Ægir Hreinn Bjarnason og Bjarki Rúnar Kristinsson 8 stig hver.

Kjarninn
Fjölnir situr nú í fjórða sæti 1. deildar karla með 8 stig að loknum 7 leikjum en næsti leikur þeirra er á móti Hamri í Dalhúsum á næstkomandi mánudag.

Gnúpverjar sitja í sjöunda sæti deildarinnar með 4 stig úr 6 leikjum og er næsti leikur þeirra heimaleikur á móti Snæfelli sem fer fram á sunnudaginn. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -