Fjölnismaðurinn Daníel Ágúst Halldórson var á dögunum nefndur sem einn besti nýliði annarar deildar háskólaboltans í Bandaríkjunum af vefmiðil deildarinnar.
Daníel Ágúst leikur fyrir Southeastern Oklahoma State, en hann er einn níu nýliða sem fjallað er um sem þá áhugaverðustu. Umfjöllunina má lesa hér, en um hann segir í henni: “Daníel, 188 cm bakvörður frá körfuboltaverksmiðjunni í Grafarvogi, mun ekki hjálpa Savage Storm að vinna DII meistaratitilinn á þessu tímabili, en hann hefur vissulega verið góð viðbót við liðið. Það hafa verið aðeins fimm þrefaldar tvennur í deildinni á þessu ári og Daníel á þá síðustu” Þá er sagt að hann myndi sóma sér vel í hvaða liði deildarinnar sem er og að hann ætti alveg örugglega að vera valinn í úrvalslið nýliða að tímabili loknu.
Daníel hefur farið virkilega vel af stað með Southeastern Oklahoma State, en það sem af er tímabili hefur hann skilað 10 stigum, 5 fráköstum og 7 stoðsendingum að meðaltali í leik, en hann er stoðsendingahæsti nýliðinn í deildinni á landsvísu að meðaltali.