Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Portúgal. Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.
Martin Hermannsson – 8 – Maður leiksins
Martin var flottur í dag, sérstaklega sóknarlega. Var duglegur að finna sauma í vörn Portúgala og var alltaf að leita að vesta möguleikanum. Gekk þó ekki nægilega vel í fjórða lekhluta enda gleyptu dómarar leiksins flautuna mikið í lokafjórðungnum.
Hlynur Bæringsson – 6
Skotin voru ekki að detta hjá Hlyni í dag en hann skilaði eins og alltaf góðu dagsverki á báðum endum vallarins. Það hefði verið gott að fá meira framlag sóknarlega frá honum, en hann var samt duglegur að finna félaga sína og skilaði 4 stoðsendingum.
Kristófer Acox – 3
Kristófer fann sig einfaldlega ekki í dag. Klikkaði úr nokkrum sniðskotum og náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Hann rífur sig í gang fyrir næsta leik, undirritaður hefur enga trú á öðru.
Elvar Friðriksson – 5
Átti fína spretti í sókninni og var eins og alltaf tilbúinn að finna liðsfélaga sína með góðum sendingum. Var þó full kærulaus á köflum með boltann og lauk leik með fimm tapaða bolta. Varnarlega stóð hann sig ágætlega en sofnaði þó nokkrum sinnum á verðinum.
Tryggvi Hlinason – 7
Fínn leikur hjá Tryggva sem skoraði úr 7 af 8 skotum sínum í leiknum og var duglegur að bjóða sig upp við körfuna. Tryggvi breytti fjöldanum öllum af skotum varnarlega þó svo að hann hafi ekki verið skráður með varið skot í leiknum. Sem allir sem horfðu á leikinn vita að er rangt. Var í smá vandræðum með að stöðva bakverði Portúgala á leið sinni að körfunni.
Hörður Axel Vilhjálmsson – 6
Hörður var að vanda öflugur varnarmegin vallarins og stóð sig ágætlega í því að stýra sóknarleik liðsins. Var kannski ekki hans mest afgerandi leikur en Hörður var mjög skilvirkur í sínum aðgerðum í dag.
Ólafur Ólafsson – 5
Var duglegur í vörninni en lagði lítið til málanna sóknarlega.
Kári Jónsson – 8
Spilaði einungis átta mínútur í leiknum, en þvílíkar átta mínútur. Kári lét þristunum rigna og var stöðug ógn sóknarlega. Sýndi að hann þarf fleiri mínútur enda frábær skytta og skorari. Varnarmegin var hann í smá erfiðleikum, en skilaði sínu virkilega vel í dag.
Ægir Þór Steinarsson – 5
Að vanda virkilega öflugur í boltapressunni, en gerði lítið sóknarlega og tapaði tveimur boltum á sínum níu mínútum.
Collin Pryor – Engin einkunn
Collin spilaði lítið og setti sitt mark ekki á leikinn.
Kristinn Pálsson – Spilaði ekki Nóg
Hjálmar Stefánsson – Spilaði ekki nóg