Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Lúxemborg. Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við hlutverk og spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.
Hörður Axel Vilhjálmsson – 7
Spilaði góða vörn og frákastaði vel. Hörður komst mjög vel frá þessu landsliðsverkefni eins og venjulega þó skotin hafi ekki alveg verið með honum í liði.
Elvar Már Friðriksson – 8
16 stig og 7 fráköst frá Elvari, sem átti flotta landsleikjahrinu. Nema í þriggja stiga skotunum. Hann var búinn að taka níu slík (sex í fyrri leiknum og þrjú í þessum) og hitta úr engu. Hann setti það stærsta og það telur. Sigurkarfa og allir sáttir heim.
Sigtryggur Arnar Björnsson – 6
Ekki hans besti leikur en heldur alltaf vörninni við efnið. Missti sjónar á sínum manni í lokasókn Lúxemborgarmanna.
Jón Axel Guðmundsson – 8
Fyllir alltaf tölfræðiblaðið og daðraði við þrennuna með línu upp á 17/10/9. Flottur í dag rétt eins og í fyrri leiknum. Alltaf tilbúinn að axla ábyrgð þegar þess þarf.
Tryggvi Snær Hlinason – 9 – Maður leiksins
Tryggvi með 25 stig og þrjú varin skot. Lokaði teignum á tímabili varnarlega og setti 11 af 14 skotum sínum. Glæsileg frammistaða hjá þeim stóra.
Kári Jónsson – 7
Það er gott að fá Kára Jónsson inn af bekknum. Öll hans skot líta vel ú tog hann skilar yfirleitt flottri nýtingu rétt eins og í dag. Tók einnig 6 fráköst og villaði út – aftur.
Ólafur Ólafsson – 6
Ólafur kom inn með baráttu eins og venjulega en setti mark sitt eiginlega ekki á leikinn nema þegar að dómararnir þurftu að fara í sjónvarpsskjáinn til þess að skoða atvik milli hans og leikmanns Lúxemborgar.
Tómas Þórður Hilmarsson – 5
Spilaði lítið í dag og voru áhrif hans á leikin ekki mikil.
Styrmir Snær Þrastarson – 6
Fyrsti landsleikurinn hjá unga manninum og hann nýtti sínar mínútur ágætlega. Komst á línuna og skoraði sín fyrstu stig fyrir Íslands hönd. Verða vonandi fleiri.
Gunnar Ólafsson – Spilaði ekki nóg
Kristinn Pálsson – Spilaði ekki
Hjálmar Stefánsson – Spilaði ekki