Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Ítalíu.
Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við
hlutverk og spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.
Elvar Már Friðriksson 6
Byrjaði ágætlega og var að finna glufur á millifærinu gegn vörn Ítala. Það fjaraði fljótlega út í sandinn. Elvar er okkar besti leikstjórnandi og mikilvægasti sóknarmaður en hann missti algerlega stjórnina á leiknum í öðrum leikhluta þegar Ísland gróf sér stóra holu. Tapaði í heildina átta boltum sem voru tvöfalt fleiri en stoðsendingarnar sem hann gaf. Var einnig í tómum vandræðum í vörninni gegn boltahindrunum Ítala. Elvar tók í heildina 11 skot og skoraði 15 stig. Í fjarveru Martins Hermannssonar myndi undirritaður vilja sjá þær skottilraunirnar tvöfaldast hjá jafn hæfileikaríkum leikmanni og Elvari.
Ægir Þór Steinarsson 7
Ægir gerði í sjálfu sér ekki mikið af mistökum í þessum leik. 9 stig í 6 skotum með engann tapaðan bolta eru fínar tölur fyrir varaleikstjórnanda. En vandamálið er að Ægir var ekki beint varaleikstjórnandi í þessum leik. Heldur félagi Elvars í framlínu liðsins sem boltabakvörður. Hann fékk lítið að láta ljós sitt skína sóknarlega. Ekki hans besti leikur.
Jón Axel Guðmundsson 8
13 stig í 13 skotum hjá Jóni sem hefði átt að gegna stærra hlutverki í kvöld. Eftir frekar
ósýnilegan fyrri hálfeik steig hann upp sóknarlega í þriðja leikhluta og lét til sín taka varnarlega. Á þessum kafla var hann duglegur að taka af skarið og hjálpaði bakvörðunum að færa boltann hratt á milli manna. Varnarlega var Jón í miklum vandræðum án þess þó að maður geti sett sökina alfarið á hann sjálfan. Góðar hindranir Ítala gerðu honum erfitt fyrir og hann lenti ítrekað fyrir aftan sinn mann vörninni sem skilaði sóknarfráköstum fyrir Ítali.
Haukur Helgi Pálsson 5
Haukur skoraði 3 stig af vítalínunni í kvöld og er þá framlag hans í rauninni upptalið.
Var ekki ógn sóknarmegin á vellinum öðruvísi en í skotum úr kyrrstöðu sem duttu ekki og varnarlega átti hann í einhverjum erfiðleikum, hvort sem það var að spila vörn úti á þriggja stiga línunni eða inni í teignum.
Tryggvi Snær Hlinason 7
Tryggvi jarðaði ítalska liðið fyrir nokkrum misserum með einni bestu frammistöðu sem maður hefur séð frá íslenskum landsliðsmanni. Í kvöld tók hann 10 víti, 4 skot utan af velli og varði þrjú skot á 36 mínútum. Í raun ekkert skelfileg frammistaða, en þegar maður lítur á mikilvægi hans fyrir landsliðið og hversu stóra rullu hann spilar báðum megin á vellinum var margt sem undirritaður saknaði.
Þegar ítalska liðið átti sitt svakalega áhlaup í fyrri hálfleik þá voru þeir að miklu leiti að ráðast á Tryggva og hans veikleika í að mæta út í skotmenn. Tryggvi var rifinn út úr teignum og ef skotið hafnaði ekki beint ofaní í grillið á okkar besta leikmanni þá tóku liðsfélagar hans sóknarfráköst gegn litum liðsfélögum hans.
Til þess að Ísland eigi möguleika gegn jafn sterku liði og Ítalíu þarf Tryggvi að vera einn áhrifamesti leikmaður vallarins. Hann var það ekki alltaf í dag.
Kristinn Pálsson 6
5 stig úr 5 skotum og gerði lítið af vitleysum. Kristinn er þannig gerður að hann gerir sjaldan mistök, en það hefði verið gaman að sjá hann vera aggressívari í kvöld. Lagði ekki mikið á borðið.
Kári Jónsson 5
Kom ágætlega snemma inn á völlinn en hans framlag í leiknum var lítið sem ekkert.
Var í vandræðum varnarlega og mátti sín lítils gegn aggressívri vörn Ítala hinum megin á vellinum.
Orri Gunnarsson 8
Komst fínt frá sínu. 7 stig í 4 skotum og refsaði þegar hann var galopinn. Mætti spila meira.
Sigtryggur Arnar Björnsson (Spilaði of lítið)
Styrmir Snær Þrastarson (spilaði of lítið)
Hilmar Henningsson (spilaði of lítið)