spot_img
HomeFréttirEigandi LA Clippers í lífstíðarbann frá NBA deildinni

Eigandi LA Clippers í lífstíðarbann frá NBA deildinni

Fyrir innan við viku síðan birti slúðurvefurinn TMZ.com upptöku af Donald Sterling, eiganda Los Angeles Clippers að segja ófögnuð við “kærustu” sína um blökkumenn og aðra af öðru litarhafti en hvítu. Ummælin vöktu hörð viðbrögð leikmanna og fjölmiðlamanna. Sterling hefur viðurkennt að rödd hans sé á upptökunni en segist ekki vita hvernig hún hafi borist til fjölmiðla.  Samkvæmt tilkynningu frá fjölmiðlafulltrúa Clippers stuttu eftir að upptakan var birt, á Sterling og fjölskylda hans í málaferlum við konuna sem er viðmælandi Sterling á upptökunni og að haft sé eftir henni að hún hafi ætlað “að ná sér niður á honum”. 
 
Í gær tilkynnti Adam Silver, nýr forseti NBA deildarinnar síðan í haust, að Donald Sterling hafi verið dæmdur í lífstíðarbann frá öllum viðburðum NBA deildarinnar og gert að greiða $2,5 milljón í sekt. Sektin er sú hæsta sem regluverk NBA deildarinnar býður upp á en bannið hins vegar meinar honum aðgangi að öllu sem tengist Clippers liðinu, leikjum, æfingum blaðamannafundum og öðru slíku. Silver tilkynnti einnig að NBA deildin muni hvetja hina eigendur deildarinnar til að þvinga Sterling til að selja liðið, en 75% atkvæða eigendanna 30 þarf til að fá því fram eða 22. Samkvæmt nýjustu fréttum hafa allir hinir 29 eigendur liða í deildinni samþykkt að því verði framfylgt.
 
Heyrst hefur af mörgum sem áhuga hafa á að kaupa liðið og þar er fremstur í flokki Ervin “Magic” Johnson, fyrrverandi Lakers leikmaður og meðlimur frægðarhallarinnar. Hann var nafngreindur í fyrrnefndri upptöku þar sem Sterling tjáði konunni að hann væri ósáttur við að hún léti mynd af sér og Magic inn á samfélagsmiðilinn Instagram.
 
Donald Sterling er annálaður drullusokkur og einn allra óvinsælasti eigandinn í NBA deildinni. Fyrir nokkrum árum komst hann í fréttirnar fyrir að leggja Baron Davis, leikmann Clippers einelti frá hliðarlínunni. Langur hali ákæra og kvartana gegn honum um kynþáttahatur og misrétti fylgir honum . Fjölmiðlar vestan hafs hafa ítrekað útnefnt hann versta eiganda í bandarískum atvinnuíþróttum. Sterling keypti Clippers þegar þeir voru í San Diego árið 1981 fyrir $12,5 milljónir. Alla daga síðan þá hefur NBA deildin ítrekað sektað hann fyrir hin og þessi brot. Talið er að Clippers liðið sé metið á allt frá $750 milljónum til $1 milljarðs.
 
Svo virðist sem Adam Silver hafi ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi með þessum úrskurði. Annars vegar losa deildina við óvinsælan fordómadurg sem hafði verið þyrnir í augum stjórnenda hennar lengst af, og hins vegar lemja hann fast með allar myndavélarnar á sér á sínu fyrsta tímabili sem forseti deildarinnar. Silver þarf líka að vernda vörumerki deildarinnar sem er mögulega viðkvæmt fyrir öllum uppákomum sem þessum. Viðbrögðin hafa heldur ekki setið á sér. Leikmennirnir fagna úrskurðinum og þakka Silver fyrir að verja heiðarleika deildarinnar.
 
Aldrei áður hefur jafn hart verið tekið á málefni sem varðar kynþáttafordóma áður. Þeir hafa loðað við deildina allt frá upphafi. Isiah Thomas lét eitt sinn hafa eftir sér að ef Larry Bird væri svartur “væri hann bara enn einn venjulegi leikmaðurinn”. Spike Lee, kvikmyndaleikstjóri og grjótharður Knicks-stuðningsmaður sagði opinberlega að Bird væri “ofmetið afkvæmi hvítra fjölmiðla”. Larry Bird sagði sjálfur að hann liti á það sem móðgun ef hvítur leikmaður væri settur á hann. Lítið fór fyrir aðgerðum þá. Elgin Baylor, fyrrverandi Lakers leikmaður endaði 22 ára starf sitt sem framkvæmdastjóri Clippers með því að lögsækja Sterling fyrir kynþáttahatur. Sterling fór oft með kvenfólk inn í búningsklefa Clippers leikmanna eftir leiki til að sýna þeim “fagra svarta skrokka”. Engin voru viðbrögðin þá af hálfu deildarinnar.
 
Það er von undirritaðs að þessi tvískinnungur NBA deildarinnar heyri nú sögunni til með nýjum forseta og að kynþáttamisrétti af öllu tægi verði mætt með hörku – en ekki að þessi hörðu viðbrögð við ósmekklegu athæfi Sterlings séu aðeins hann að grípa tækifærið til að skipta um eigendur á Clippers liðinu.
Fréttir
- Auglýsing -