KR hafði sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld í annari umferð Iceland Express deild kvenna. 87:97 var lokastaða leiksins og sigurinn má segja að hafi verið verðskuldaður þar sem að KR hafði frumkvæðið mest allan leikinn.
Jafnt var á með liðunum í fyrsta fjórðung en í öðrum fjórðung tóku gestirnir góðan sprett og náðu sér í gott 10 stiga forskot fyrir hálfleik. Njarðvíkurstúlkur voru þó ekki af baki dottnar og náðu að minnka muninn niður í þeim þriðja en skorti aðeins uppá að komast almennilega inn í leikinn.
Í fjórðaleikhluta náði Njarðvík svo muninum niður í 4 stig þegar um 3 mínútur voru til loka og bjuggust allir við hörku lokasprett í leiknum. En KR liðið er sterkt og náði að halda sínum hlut og landaði 10 stiga sigri. Varnarleikurinn varð Njarðvík að falli að þessu sinni og segir stigaskorið allt sem segja þarf um það.
Reyana Colson var stigahæst KR með 29 stig og næst henni var Kara Sturludóttir með 21 stig.
"Þetta var bara hörkuleikur eins og ég bjóst við. Njarðvík komu mér ekkert á óvart í kvöld ég vissi að þær yrðu erfiðar heim að sækja. Við lögðum upp með að sprengja leikinn aðeins upp og pressa á þær. Við vorum að prófa okkur áfram í nýrri vörn sem virkaði ágætlega Við söknuðum Helgu að sjálfsögðu en vonandi verðu hún komin eftir nokkrar vikur aftur. Það munar miklu í vörninni þegar vantar svona stóran póst." sagði Kara Sturludóttir að leiks lokum.
Hjá Njarðvík var Lele Hardy allt í öllu með 27 stig og 12 fráköst þrátt fyrir að spila sárþjáð á ökkla eftir að hafa misstigið sig á æfingu fyrir leik. Petrúnella Skúladóttir átti einnig prýðisleik með 22 stig.