Jaleesa Butler var að vonum ánægð með sigur Keflavíkur á nýliðum Vals í kvöld. Butler var ekki fjarri þrennunni með 15 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar en hún gat næstum því haft það náðugt í síðari hálfleik þegar bakverðir Keflavíkur settu upp skotsýningu.
,,Það er enginn sigur auðveldur í þessari deild og við verðum að mæta í alla leiki og berjast. Við gerðum það í kvöld sem við þurftum til að landa þessum sigri,“ sagði Butler í samtali við Karfan.is.
,,Mín skot voru ekki að detta í kvöld og því gott að liðsfélagarnir standi þétt við bakið á manni eins og sýndi sig. Okkur tókst að finna heita manninn í Pálinu sem setti nokkra stóra og glæsilega þrista og sem betur fer eru leikmenn hjá okkur sem geta stigið upp þegar aðrir, eins og ég, eru ekki að sjá boltann detta.“
Var Butler orðin óþolinmóð í teignum þegar Keflavík var að láta þristum rigna í þriðja leikhluta? ,,Nei nei, alls ekki. Það er svo mikilvægt að láta ekki andstæðinga sína ýta sér út úr sínum aðgerðum og í þriðja leikhluta voru það bakverðirnir okkar sem stjórnuðu sýningunni.“
Hvernig finnst Butler staðan á Keflavík í augnablikinu?
,,Við lítum vel út núna en vissulega erum við enn að finna taktinn í s.b.v. leikstjórnandastöðuna. Ingibjörg er að glíma við slæm meiðsli en við björgum okkur þar sem Pálína er að standa sig vel í þessu hlutverki þó þetta sé ekki hennar aðalstaða.“
Signý Hermannsdóttir segir Valskonur vera að berja sig saman um þessar mundir og að liðið hafi aldrei ætlað sér að toppa í október.
,,Það var alveg þess virið að prófa svæðisvörnina í seinni hálfleik, við vorum kannski að spila ágætis vörn en þurfum samt að laga þetta,“ sagði Signý en Keflavík lét þristunum rigna yfir svæðisvörn Valskvenna í kvöld. Valur barðist ágætlega á lokaspretti leiksins, hvar var sú barátta lungann úr síðari hálfleik?
,,Góð spurning, ég bara get ekki svarað henni.“
Signý segir nýliða Vals hafa átt að gera betur í kvöld: ,,Við erum enn svolítið að berja okkur saman, leikmenn að læra hvern inn á annan og við erum að gera mistök sem maður sér hjá nýliðum en það er betra að koma því frá sem allra fyrst. Við erum ekki að toppa í október og ætluðum aldrei að gera það en við áttum að gera betur í kvöld.“
Signý er einn reyndasti leikmaður deildarinnar, hver er hennar tilfinning fyrir deildinni þetta tímabilið?
,,Ég held að deildin sé jafnari en oft áður, hún er reyndar mjög jöfn og skemmtilegt að vita ekki fyrirfram hvernig leikirnir fara.“
Mynd/ [email protected]