Leikmenn KFí héldu í keppnisferð á stór Borgarnessvæðið um helgina. Á föstudaginn var lögðu þeir lið Fjölnis að velli í Grafarvogi og í gærkvöld beið þeirra erfiður leikur gegn sjóðheitu liði Skallagríms í Fjósinu í Borgarnesi. Gamla hetjan úr Borgarnesi, Pétur Már mætti með lið sitt á kunnuglegar slóðir en þessi lið hafa marga hildina háð í gegnum tíðina. Pétri til aðstoðar var hinn hugumprúði öðlingur Guðjón Þorsteinsson sem ávallt er aufúsugestur í Fjósinu.
Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur og voru snemma komnir með 6 stiga forystu. Varnarleikur Skallana var slakur og hittni þeirra vestfirðinga góð. Borgnesingar náðu að jafna skömmu fyrir lok leikhlutans, en gestirnir sigu jafnharðan framúr aftur. Staðan að 10 mínútum liðnum 23-26. Fátt breyttist í leik liðanna í öðrum leikhluta. Leikmenn KFí hittu hvar sem þeir stóðu á vellinum og áfram var varnarleikur fjósamanna slakur. Einhver doði var á leik heimamanna, hálfgerður súrdoði. Það nýttu gestirnir sér vel og þrátt fyrir gott áhlaup heimamanna undir lok hálfleiksins leiddu ísfirðingar 45-49 er gengið var til skrafs og ráðagerða í hálfleik. Hittni vestfirðinga í fyrri hálfleik var mögnuð, 9 þristar í 15 skotum
Fátt breyttist í leik liðanna í 3.leikhluta. Leikmenn gestanna hittu alltaf og vörn Skallanna skánaði ekkert. Damier Pitts hreinlega labbaði framhjá vörn heimamanna og skoraði nánast að vild. Hjá fjósamönnum voru Carlos, Haminn og Palli allt í öllu í sóknarleiknum, en það dugði skammt. Þegar staðan var orðin 70-84 í upphafi 4.leikhluta fóru Borgnesingar loks að bíta frá sér í vörninni og náðu að minnka muninn í 78-84, en nær komust þeir ekki. Lærisveinar Péturs virtust alltaf eiga svör. Svo fór að lokum að Ísfirðingar náðu að landa sigri þrátt fyrir grimma atlögu Skalla í lokin. Sú atlaga kom bara of seint, lokatölur 96-101
Damier Pitts var atkvæðamestur hjá gestunum með 30 punkta og 11 stoðsendingar. Kristján Pétur bætti við 19 stigum, þar af 6 þristum í 9 skotum. KFí eru þar með komnir með 8 stig í deildinni eftir tvo sigra í röð og búnir að hífa sig aðeins frá botninum
í liði Skallagríms voru þeir; Carlos 36 stig, Haminn 20 stig og 18 fráköst og Paxel 18 stig, atkvæðamestir að venju. Borgnesingar spiluðu aðeins almennilega vörn i samtals 4 mínútur í leiknum og það dugar öngvan vegin gegn jafn skotvissu liði og KFí. Borgnesingar enn um miðja deild með 10 stig
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar Gunnarsson