spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaDýrmæt stig Þórsara gegn meisturunum eftir framlengingu!

Dýrmæt stig Þórsara gegn meisturunum eftir framlengingu!

Geðlyfið góða, körfuboltinn, er byrjað að stilla okkur af á Klakanum og í kvöld hófst 2. umferð Bónusdeildarinnar. Það verður ekkert bruðl í vetur (nema kannski hjá forsetanum), bara skemmtilegheit eins og alltaf.

Íslandsmeistarar Vals fengu Þorlákshafnarpilta í heimsókn. Það virðist vera vinnuregla hjá Val, eða kannski frekar Finni Frey, að leggja í‘ann í fyrsta gír, enda er það rökrétt. Liðið er frekar þunnskipað og legið hefur fyrir lengi að Kristó verður ekki í búningi á næstunni. Hvað sem því líður þarf liðið að næla sér í einhver stig næstu vikurnar og spurning hvort þau fyrstu komi í hús í kvöld.

Þórsarar hafa þegar nælt í 2 stig með góðum sigri í fyrstu umferð gegn Njarðvík. Liðið byggir sem fyrr á nokkrum flottum heimamönnum, Jordan Semple og svo nýju erlendu vinnuafli. Tekst þeim að skilja meistarana eftir stigalausa eftir tvær umferðir, Kúla góð?

Kúlan: ,,Nú jæja já…er þetta að byrja aftur. Það vinnur enginn titil í október svo þetta skiptir engu rassgats máli. Þór vinnur 82-90 svona ef einhverjum er ekki slétt“, sagði Kúlan sem virðist þjást af forskammdegisþunglyndi.

Byrjunarlið

Valur: Hjálmar, Badmus, Kiddi Páls, Sherif, Kári Jóns

Þór Þ.: Bulow, Semple, Brown, Raggi Braga, Jackson

Gangur leiksins

Bulow var áberandi fyrir gestina í byrjun, setti fyrstu 6 stig Þórsara og þeir tóku fljótt frumkvæðið. Eftir um 5 mínútna leik leiddu gestirnir 6-15. Hjálmar bætti þá úr stigaþurrð Valsara með 2 þristum og á sama tíma var vitleysisgangur á sókn gestanna og Valsmenn færðust nær. Þórsarar áttu hins vegar góðan lokakafla í fjórðungnum og leiddu 14-25 að honum loknum.

Hlutirnir litu ljómandi út fyrir gestina fyrstu mínúturnar í öðrum fjórðungi og undirritaður hafði þá tilfinningu að Þórsarar hefðu færi á því að hamra járnið áfram og slíta sig frá meisturunum. En það er gömul saga og ný að Valsliðið er ólseigt og um miðjan annan leikhluta setti Kiddi stöðuna í 28-29 með körfu góðri eftir góða vörn og hraðaupphlaup. Badmus tróð svo meisturunum yfir örstuttu síðar eftir góðan stolinn bolta, staðan 30-29.  Jafnræði var svo með liðunum fram að hléi en Kiddi sá til þess að meistararnir leiddu 41-37 í pásunni eftir að hafa fiskað villu á fyrirliða gestanna og uppskorið 4 vítaskot.

Hjálmar og Badmus eru kannski ekki þeir líklegustu til að raða þristum en eftir einn á mann um miðjan þriðja leikhluta voru það Valsmenn sem höfðu reist 10 stiga múrinn í stöðunni 55-45. Á þessum tímapunkti var tilfinningin sú að Þórsarar væru nú algerlega búnir að klúðra góðum möguleika á sigri gegn meisturunum. Þeir öskruðu sig hins vegar í gang varnarlega, náðu nokkrum hörku góðum stoppum og í sumum tilvikum snöggum stigum hinum megin og múrinn hvarf! Fyrir lokaleikhlutann voru gestirnir aftur komnir í bílstjórasætið og leiddu 61-68.

Ekki voru áhlaupin stór í fjórða leikhluta, jafnræði var með liðunum en Valsarar nöguðu sig upp að hlið gestanna og áhorfendur fengu spennandi lokamínútur! Sherif kom Val 78-76 yfir þegar mínúta lifði leiks, Badmus bætti stigi við skömmu síðar og Þórsarar þurftu þrist til að jafna. Jackson veiddi sér 3 vítaskot þegar 5 sekúndur voru eftir, klúðraði síðasta skotinu og Badmus fékk færi á að klára leikinn á línunni. Það gerði hann ekki og Tamulis hafði það í sér að jafna leika í 81-81 með flautukörfu gegn sínum gömlu liðsfélögum! Framlenging.

Þórsarar settu tvo þrista í byrjun framlengingar en það eru ekkert nema sinar í þessu Valsliði og spennan hélt áfram. Enn var jafnt þegar rúm mínúta var eftir, 87-87. Það kom þó að því að úrslit myndu ráðast, gestirnir leiddu 88-91 þegar 16 sekúndur voru eftir og komið að Völsurum að freista þess að jafna með þristi. Það gekk ekki eftir og Þórsarar hirtu býsna góð stig af heimavelli Íslandsmeistaranna, lokatölur 88-95.

Menn leiksins

Jackson lítur ansi vel út og spilaði mjög vel í kvöld, setti 27 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, Bulow var enn betri, skilaði 26 stigum, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Badmus var bestur Valsara með 20 stig, tók heil 16 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hjálmar Stefáns er ekki alltaf ofarlega í stigaskori en hann var frábær í kvöld, setti 19 stig í pokann, skaut 5/11 í þristum og góður varnarlega eins og alltaf.

Kjarninn

Eins og fram kemur í inngangi er ekkert nýtt að Valsmenn fari frekar rólega af stað. Þeir þurfa samt að hirða einhver stig fyrri hluta móts og engin hafa skilað sér nú eftir fyrstu 2 leikina. Undirritaður sér Finn Frey bara glotta við tönn, ekkert stress, þetta kemur allt með kalda vatninu hjá meisturunum. Að lokum má bæta því við að Sherif er sennilega í þessum skrifuðum að pakka niður í tösku…

Þórsarar hafa hins vegar fengið hörku gott start og hafa fullt hús stiga. Af ótrúlegum skepnuskap ákvað undirritaður samt að henda því í andlitið á hæstvirtum Lalla í viðtali eftir leik að leikurinn í kvöld hafi samt sem áður ekki verið nógu góður hjá liðinu, t.d. vegna þess að Valsliðið er bara í fyrsta gír. Lesið bara viðtalið og sjáið hvernig Lalli rakti skepnuskapinn ofan í undirritaðan.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -