Álftnesingar lögðu Grindavík í kvöld í annarri umferð Subway deildar karla, 86-79.
Sigurinn var sá fyrsti sem Álftanes vinnur í efstu deild, en þeir eru eftir leikinn með einn sigur og eitt tap það sem af er keppni á meðan að Grindavík hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.
Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nokkuð jafn undir lokin, en Grindvíkingar höfðu unnið sig inn í leikinn eftir erfiða byrjun, þar sem Álftanes leiddi með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 27-17 og 12 stigum í hálfleik, 50-38. Undir lok leiks nær Grindavík að komast í forystu áður en þeir missa heimamenn aftur frá sér og niðurstaðan að lokum er 7 stiga sögulegur sigur Álftnesinga, 86-79.
Atkvæðamestur fyrir heimamenn í leiknum var Dúi Þór Jónsson með 25 stig og 4 stoðsendingar. Fyrir gestina úr Grindavík var það Ólafur Ólafsson sem dró vagninn með 23 stigum og 11 fráköstum.
Myndasafn (Ingibergur Þór)