Álftnesingar lögðu Grindavík í Smáranum í kvöld í 18. umferð Bónus deildar karla, 92-94. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 4. til 6. sæti deildarinnar með 18 stig líkt og Íslandsmeistarar Vals.
Fyrir leik
Bæði lið höfðu verið á ágætis siglingu undanfarið. Álftnesingar þó öllu meira, hafandi unnið síðustu þrjá leiki síðan, en bæði lið höfðu unnið þrjá af síðustu fimm. Í lið Álftaness vantaði lykilmann í Justin James, en hann var fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
Fyrir leik minntust Grindvíkingar Ólafs Þórs Jóhannssonar sem lést á dögunum. Ólafur var lengi leikmaður fyrir félagið og eftir að ferlinum lauk var hann félaginu gífurlega mikilvægur í stjórnum og utanumhaldi. Þá var hann einnig í stjórn KKÍ og varaformaður sambandsins um áraraðir.
Gangur leiks
Það voru gestirnir af Álftanesi sem hófu leik kvöldsins af miklum krafti. Grindvíkingar gera ágætlega í að fylgja þeim, en munurinn er þó 10 stig að þeim fyrsta loknum, 20-30. Miklu munaði sóknarlega um David Okeke fyrir Álftanes á þessum upphafsmínútum leiksins, en hann var með 11 stig á fyrstu rúmu sjö mínútunum.
Heimamenn halda áfram að grafa sér holu í upphafi annars fjórðungs og er munurinn 19 stig þegar mest lætur. Sterk innkoma Ólafs Ólafssonar af bekk Grindavíkur og Jeremy Pargo að þakka ná þeir þó að skjóta sig aftur inn í leikinn. Enn hörkuleikur þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-54.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Jeremy Pargo með 20 stig, en fyrir Álftanes var Davis Okeke stigahæstur með 16 stig.
Grindvíkingar gera sig líklega til þess að jafna leikinn á upphafsmínútum seinni hálfleiksins. Mikil baráttugleði og áframhald góðs leiks David Okeke koma þó í veg fyrir það. Undir lok þriðja fjórðungsins nær Grindavík svo góðu áhlaupi og er munurinn aðeins sex stig fyrir lokaleikhlutann, 64-70.
Áhlaup heimamanna heldur áfram í fjórða leikhlutanum og tekst þeim loks að jafna leikinn í fyrsta skipti með körfu frá Jeremy Parga þegar um fjórar mínútur eru eftir, 81-81. Leikurinn er svo í járnum inn í brakmínútur leiksins.
Með 28 sekúndur á klukkunni í stöðunni 92-92 fær Álftanes boltann. Dúi Þór Jónsson leikstjórnandi þeirra fer í sókn og með rúmar 5 sekúndur eftir setur hann sigurkörfu leiksins. Tilraun Grindavíkur á lokaskúndununum fer forgörðum og Álftanes vinnur leikinn, 92-94.
Kjarninn
Það er óhætt að segja að Álftanes séu músin sem læðist í Bónus deildinni. Lítið sem ekkert talað um þá sem eitt af sterkari liðum deildarinnar, en hérna eru þeir, búnir að vinna fimm leiki í röð og í alvöru baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Tapið þó ekki alslæmt fyrir Grindavík, sem sýndu það á löngum köflum í kvöld að þeir hafa á að skipa einhverja alhæfileikaríkustu leikmenn deildarinnar.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestur í liði heimamanna í leiknum var Jeremy Pargo með 39 stig og 8 stoðsendingar. Honum næstur var DeAndre Kane með 17 stig, 17 fráköst og 7 stoðsendingar.
Fyrir Álftanes var Hörður Axel Vilhjálmsson atkvæðamestur með 18 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá skilaði David Okeke 28 stigum og 8 fráköstum.
Hvað svo?
Leikur kvöldsins var hluti af síðustu umferð fyrir landsleikjahlé. Bæði lið eiga leik næst 28. febrúar, en þá tekur Álftanes á móti Tindastóli og Grindavík fær Keflavík í heimsókn.