spot_img
HomeFréttirDraymond Green í ótímabundið bann

Draymond Green í ótímabundið bann

NBA deildin hefur sett Draymond Green leikmann Golden State Warriors í ótímabundið bann frá keppni í deildinni. Bannið er tilkomið vegna glórulausrar framgöngu leikmannsins í viðureign Golden State og Phoenix Suns þar sem Green kýldi Jusuf Nurkic leikmann Suns.

Green fékk dæmda á sig svokallaða „Flagrant 2 foul” en henni fylgir bein brottvísun frá leik. Bannið tekur gildi strax en þetta er önnur brottvísun Green á yfirstandandi tímabili og í úrskurðarorðum NBA-deildarinnar kemur m.a. fram að taka verði með í reikninginn að um síendurtekna hegðun leikmannsins sé að ræða.

Þetta var í átjánda sinn sem Green er rekinn úr húsi á NBA-ferli sínum sem er met á meðal virkra leikmanna í deildinni. Minna en mánuður er síðan Green var sendur úr húsi í leik gegn Minnesota þar sem hann tók Rudy Gobert hálstaki.

Fá fordæmi eru fyrir ótímabundnu banni í NBA deildinni en árið 2010 var Gilbert Arenas settur í ótímabundið bann af þáverandi framkvæmdastjóra deildarinnar David Stern. Arenas hafði þá komið með skotvopn inn í búningsklefa líðs síns. Það var upphafið að 50 leikja banni fyrir Arenas. Hvað verður leikbann Green þá á endanum langt?

Fréttir
- Auglýsing -