Ísland lagði Úkraínu í kvöld í öðrum leik ágúst glugga undankeppni HM 2023, 91-88. Með sigrinum færist Ísland upp í þriðja sæti riðils síns, en efstu þrjú liðin munu komast á lokamótið á næsta ári.
Fyrir leik
Fyrir leikinn var Ísland í 4. sæti riðilsins með þrjá sigra í fimm leikjum á meðan að Úkraína var sæti neðar með einn sigur í jafn mörgum leikjum. Bæði töpuðu liðin fyrri leik þessa ágúst glugga, Ísland gegn Spáni og Úkraína fyrir Ítalíu.
Gangur leiks
Eftir að hafa byrjað leikinn ágætlega sígur á ólukkuna hjá íslenska liðinu um miðjan fyrsta fjórðunginn. Úkraína nær að byggja sér upp þægilega tíu stiga forystu. Með miklu harðfylgi undir lok fyrsta leikhlutans nær Ísland þó að koma í veg fyrir að missa gestina of langt frá sér og eru aðeins 5 fyrir aftan eftir fyrsta, 14-19. Ísland gerir áfram vel í upphafi annars leikhlutans og eru aðeins 2 stigum undir þegar rúmar 3 mínútur eru í hálfleikinn, 30-32. Fá á þessum kafla virkilega flottar mínútur frá Elvari Friðrikssyni og Tryggva Hlinasyni. Vantar þó aðeins upp á að þeir nái að jafna leikinn, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn enn 5 stig, 36-41.
Tryggvi Snær atkvæðamestur fyrir Ísland í þessum fyrri hálfleik með 12 stig, 3 fráköst, en Elvar Már ekki langt undan með 10 stig.
Áfram heldur Ísland að saxa á forskot Úkraínu í upphafi seinni hálfleiksins. Þegar um 5 mínútur eru liðnar af þriðja fjórðungnum komast þeir einu stigi frá þeim með laglegum þristi frá Arnari Björnssyni, 45-46. Mínútu seinna nær hann svo aftur að setja þrist og koma Íslandi tveimur stigum yfir, 48-46 og Ísland því með forystuna aftur í fyrsta skipti síðan á annarri mínútu leiksins. Undir lok þess þriðja nær Ísland að láta kné fylgja kvið og ná mest 12 stiga forystu, en munurinn er 8 stig fyrir þann fjórða, 63-55.
Með nokkrum góðum sóknum frá Sviatoslav Mykhailiuk nær Úkraína að jafna leikinn á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans, 71-71. Leikurinn er svo í járnum fram á lokamínúturnar, en þegar 2 mínútur eru eftir leiðir Ísland með tveimur stigum, 80-78. Þá jafnar Úkraína leikinn, 80-80 og fá bæði lið tækifæri til þess að komast yfir, en allt kemur fyrir ekki. Staðan við lok venjulegs leiktíma 80-80 og leikurinn í framlengingu.
Liðin skiptast á körfum í upphafi framlengingarinnar. Íslandi tekst þó að vera skrefinu á undan og eru 4 stigum yfir þegar 2 mínútur eru eftir, 89-85. Í stöðunni 89-88 nær Kristófer Acox að stela boltanum af Úkraínu í lokasókn þeirra. Úkraína svarar með því að brjóta óíþróttamannslega á Elvari með tæpar 7 sekúndur eftir af leiknum. Elvar setur bæði skotin niður, 91-88, og nánast innsiglar leikinn þar sem að Ísland á boltann aftur. Niðurstaðan að lokum þriggja stiga sigur Íslands, 91-88.
Atkvæðamestir
Elvar Már Friðriksson var atkvæðamestur í liði Íslands í leiknum með 27 stig. Honum næstir voru Kristófer Acox með 14 stig, 3 fráköst og Arnar Björnsson með 13 stig og 4 fráköst.
Hvað svo?
Næsti gluggi keppninnar er í nóvember, en þann 11. tekur Ísland á móti Georgíu og 14. eiga þeir leik ytra gegn Úkraínu.
Myndasafn (Hafsteinn Snær)