Ísland laut í lægra haldi gegn Ungverjalandi í Szobathely í kvöld í næst síðasta leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025, 87-78.
Eftir leikinn er Ísland með tvo sigra og þrjú töp í þriðja sæti riðilsins á meðan Ungverjaland er enn í neðsta sætinu, nú með einn sigur og fjögur töp, en fari svo þeir jafni Ísland að sigrum á sunnudag munu þeir eiga innbyrðisstöðuna, þar sem þeir töpuðu með aðeins 5 stigum heima á Íslandi.

Fyrir leik
Fyrir leik kvöldsins var staðan sú að með sigri myndi Ísland tryggja sig áfram á lokamótið og Ungverjaland útúr keppni um það. Nokkrar sviðsmyndir þó sem voru uppi, því til þess að Ísland færi ekki á lokamótið þyrfti Ísland að tapa með 5 stigum eða meira fyrir Ungverjalandi og tapa svo fyrir Tyrklandi á sunnudag heima í Laugardalshöll á meðan Ungverjaland þurfti að vinna báða sína leiki, Ísland í kvöld (með 5 stigum eða meira) og Ítalíu úti á sunnudag.
Fyrri leikur liðanna í undankeppninni fór fram fyrir um ári síðan heima í Laugardalshöllinni. Þar hafði Ísland nokkuð sterkan fimm stiga sigur, 70-65, í leik þar sem Tryggvi Snær Hlinason skilaði 14 stigum, 11 fráköstum og Martin Hermannsson bætti við 17 stigum og 4 stoðsendingum.

Byrjunarlið Íslands
Martin Hermannsson, Tryggvi Snær Hlinason, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson og Haukur Helgi Pálsson.
Gangur leiks
Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti. Eru snöggir að byggja sér upp þægilega níu stiga forystu með vel útfærðum varnarleik og nokkrum skotum sem detta frá Martin, 2-11 eftir tæplega fjögurra mínútna leik. Heimamenn taka þá leikhlé og ná í framhaldinu að komast betur inn í leikinn.Loka fjórðungnum svo nokkuð sterkt og er munurinn aðeins eitt stig fyrir annan leikhlutann, 20-21.
Ungverjar eru svo skrefinu á undan inn í annan fjórðunginn, en íslenska liðið átti í miklu basli með nokkra bakverði þeirra á báðum endum vallarins, kannski helstan Zoltan Perl.m Ungverska skapaði sér þónokkur stig með töpuðum boltum Íslands og var munurinn orðinn 7 stig þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum, 35-28. Undir lok fyrri hálfleiks heldur Ungverjaland forskoti sínu og eru þægilegum 16 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 48-32.
Íslenska liðið átti í gífurlegum erfiðleikum í öðrum leikhlutanum, töpuðu boltanum mikið og áttu erfitt með að fá skot til að detta á sóknarhelmingi vallarins. Heimamenn nýttu sér þetta og keyrðu oftar en ekki í bakið á þeim og náðu í tvö stig. Þá átti Ísland líka bara erfitt með að verjast heimamönnum á hálfum velli, þá helst áðurnefndum Zoltan Perl, sem virtist óstöðvandi á löngum köflum.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Martin Hermannsson með 13 stig og Elvar Már Friðriksson með 9 stig.
Nokkuð meiri kraftur virðist vera í íslenska liðinu í upphafi seinni hálfleiksins. Heimamenn halda þó föstum tökum á leiknum og munar enn 13 stigum þegar sá þriðji er rúmlega hálfnaður, 59-46. Íslenska liðið gerir nokkuð vel, en nær ekki að koma forskoti heimamanna innfyrir tíu stigin. Munurinn 15 stig fyrir lokaleikhlutann, 72-57.
Í þeim fjórða gerir Ísland vel að halda sér inni í leiknum og er munurinn aðeins 10 stig þegar rúmar fimm eru eftir, 79-69. Sem náttúrulega setti þá í alvöru færi á að klára dæmið með tilliti til þess að þeir máttu tapa með fjórum stigum eða minna til að tryggja sig áfram á lokamótið. Áfram halda þeir og með troðslu frá Tryggva fer forskot heimamanna niður í 5 stig með tvær og hálfa eftir, 81-76. Á lokamínútunum gerir Ungverjaland vel að halda fjarlægð frá Íslandi, setja þrist í lokasókn sinni sem setur muninn í 9 stig þegar aðeins nokkrar sekúndur eru eftir á klukkunni. Lokaskot Íslands geiga og því fer sem fer, Ísland tapar með þessum 9 stigum, 87-78.

Kjarninn
Möguleikar Íslands á að tryggja sig á lokamótið minnkuðu í kvöld. Nú þarf liðið að treysta á að annaðhvort vinni Ítalía lið Ungverjalands á Ítalíu á sunnudaginn, eða klára dæmið sjálfir heima með sigri gegn Tyrklandi.
Atkvæðamestir
Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson voru bestir í liði Íslands í kvöld. Martin með 25 stig, 3 fráköst og Elvar Már með 20 stig, 3 fráköst og 10 stoðsendingar. Þá bætti Tryggvi Snær Hlinason við 12 stigum, 11 fráköstum, 3 stoðsendingum og 3 vörðum skotum.
Hvað svo?
Bæði liðin leika lokaleiki sína í undankeppninni á sunnudag kl. 19:30 að íslenskum tíma. Þá tekur Ísland á móti Tyrklandi í Laugardalshöll og Ungverjaland heimsækir Ítalíu í PalaCalafiore höllina í Reggio Calabria.