spot_img
HomeFréttir"Dramað í kringum Hill er frábært aukakrydd"

“Dramað í kringum Hill er frábært aukakrydd”

 

Næstkomandi fimmtudag hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Degi seinna, á föstudaginn, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.

 

Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.

 

Nú er komin röðin að stuðningsmanni liðs Tindastóls, Árna Rúnari Guðmundssyni, en lið hans mætir Keflavík í fyrsta leik í Keflavík næstkomandi fimmtudag kl 19:15.

 

 

 

Hversu lengi hefur þú og afhverju fórst þú að standa við bak Tindastóls í körfubolta?

Ég man eftir því að hafa farið fyrst á leik með Stólunum 88 eða 89 en þá fylgdist ég ekki mikið með hvað var um að vera heldur var ég bara í því að hlaupa um og leika mér. En veturinn 90/91 var körfubolti orðinn það eina sem ég hugsaði um; Jordan orðinn stjarna og Pétur Guðmundsson klæddist búning Tindastóls. Það hefur aldrei verið um neitt annað að velja heldur en að halda með Tindastól enda ekki mikið um önnur lið á Sauðárkróki.

 

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Stólanna?

Þegar Valur Ingimundar setti niður buzzer 2-3 metra fyrir utan þriggja fyrir sigri á móti Skallagrím.

 

 

 

Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Það koma margir til greina en ég verð að segja Ingvi Rafn. Var meiddur framan af vetri og hefur ekki náð sama flugi og í fyrra en er að mínu viti einn allra besti tvisturinn í deildinni. Gott skot, gott knattrak, gott auga fyrir spili og er frábær frákastari fyrir sína stöðu.

 

 

Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?

Þegar stórt er spurt… Við erum að tala um tæp 30 ár sem ég fylgst með Stólunum. Haraldur Leifs, Hinrik Gunnars, Ingvar Ormars, Ómar Sigmars, Arnar og Axel Kára, Helgarnir tveir eru allt menn sem mig langar að nefna en það verður að vera Svavar Atli Birgisson. Þegar Svabbi var uppá sitt besta var hann einn allra besti sóknarmaður landsins og verður erfitt að sjá á eftir honum þegar hann leggur skóna á hilluna. Vonum bara að þessi úrslitakeppni verði ekki hans síðasta.

 

 

Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Keflavík?

Einvígið leggst vel í mig. Þetta verður mikil spenna og mikil harka. Dramað í kringum Hill er frábært aukakrydd í þetta allt saman.

 

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Tindastóls?

Heimavöllurinn og breiddin. Geta spilað "smallball" eða "bigball" eftir því sem þarf.

 

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Keflavíkur?

Keflavík í Keflavík í Keflavík!

 

 

Hvaða leikmaður Tindastóls er lykillinn að sigri í þessari rimmu?

Helgi Viggós og Lewis.

 

 

Hvernig á serían eftir að fara?

Ég spái því að Stólarnir taki þetta í fjórum leikjum.

 

 

Ef vínrautt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?

Keflavík. Ég segji þetta ekki til að vera dipló heldur er Keflvík klárlega lið númer tvö hjá mér. Ég bjó í Keflavík á sínum tíma og sótti leiki þar sem og fór meir að segja á nokkrar æfingar með Kef b. Einn besti leikur sem ég hef farið á var fjórframlengdur leikur Keflavíkur og KR í Frostaskjólinu.

Fréttir
- Auglýsing -