spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaDraga lið sitt úr keppni

Draga lið sitt úr keppni

Fjölnir hefur ákveðið að draga lið sitt úr keppni í Subway deild kvenna fyrir komandi tímabil. Staðfestir félagið þetta með fréttatilkynningu rétt í þessu.

Tilkynninguna er hægt að lesa í heild hér fyrir neðan, en til ástæðna telur félagið bæði skort á fjármagni og meistaraflokksleikmönnum.

Tilkynning Fjölnis:

Kæra Fjölnisfólk,

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Fjölnis (KKD) hefur, í samráði við aðalstjórn félagsins og eftir samtöl við leikmenn liðsins, ákveðið að draga kvennalið Fjölnis úr keppni í Subway deildinni fyrir næsta tímabil.

Þetta er ákvörðun sem tekin er með þungum huga, en eftir vandlega ígrundun er orðið ljóst að hún er nauðsynleg.
Liðið hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku frá síðasta tímabili. Við höfum misst margar af okkar reyndustu og sterkustu leikmönnum sem ýmist eru á leið erlendis í nám, hafa lagt skóna á hilluna eða ætla sér að róa á önnur mið, auk þess sem að erlendir leikmenn liðsins hafa lokið samningum sínum. Staðan er því sú að við erum því miður ekki með nægilega marga meistaraflokksleikmenn til að halda úti æfingum, hvað þá að halda úti samkeppnishæfu liði í Subway deildinni á komandi leiktíð, án þess að fá til liðsins leikmenn sem Fjölnir hefur ekki efni á eins og staðan er í dag.

Til viðbótar við þessa erfiðu stöðu er fjárhagsstaða KKD Fjölnis einfaldlega ekki góð. Á vormánuðum eftir að ný stjórn tók við í byrjun árs 2023 var deildinni greint frá raunverulegri fjárhagsstöðu deildarinnar og kom í ljós að fjárhagur hennar var mun lakari en áður hafði verið kynnt. Deildin hefur verið í miklum hallarekstri undanfarin ár en hafði áður náð endum saman vegna fjárhagslegs stuðnings aðalstjórnar, sem nú er ekki lengur til að dreifa. Á sama tíma hefur ásókn á leiki fallið mikið síðan í heimsfaraldrinum. Þrátt fyrir að á síðasta ári hafi okkur tekist að auka tekjur deildarinnar mikið, meðal annars með því að margfalda utanaðkomandi styrki til deildarinnar frá okkar frábæru styrktaraðilum og virkum fjáröflunarleiðum, hefur það enn ekki nægt til þess að ná endum saman.

Góðu fréttirnar eru þær að framtíðin er björt! Við höfum lagt áherslu á að styrkja þjálfun í okkar frábæra ungmennastarfi, sem hefur skilað sér bæði í mikilli fjölgun iðkenda og frábærum árangri. Sem dæmi urðu stelpurnar okkar í 9. flokki Íslandsmeistarar A-liða og fóru í úrslitin í bikarkeppninni og 12. flokkur kvenna náði í undanúrslit á Íslandsmótinu. Þessi frábæri kjarni af hæfileikaríkum stúlkum eru framtíðin og KKD Fjölnis ætlar að hlúa vel að þeim. Mikilvægt er að sjá til þess að þær fái réttan vettvang til að þróa leik sinn og öðlast reynslu með þeim sem eldri á jafningjagrundvelli. Á næstu misserum verður unnið að því að efla innra starf deildarinnar, bæta og styrkja starf yngri flokka enn frekar, auk þess að styðja við meistaraflokk karla. Markmiðið er að kvennaliðið taki þátt í 1. deild kvenna á næsta tímabili.

Stjórn KKD Fjölnis vill þakka leikmönnum kvennaliðsins og öllum sem hafa komið að starfinu í vetur fyrir vel unnin störf.

Kær kveðja,
Stjórn KKD

Fréttir
- Auglýsing -