spot_img
HomeFréttirDown Town Brown kláraði Þór

Down Town Brown kláraði Þór

Ekki í fyrsta og örugglega ekki í síðasta sinn reyndist Joshua Brown þrautgóður á raunastund þegar KR tók í kvöld 1-0 forystu gegn Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Grétar Ingi Erlendsson jafnaði fyrir Þór 79-79 þegar 18 sekúndur lifðu leiks en Brown hékk á boltanum í næstu sókn og rétt áður en leiktíminn rann út skellti kappinn sér upp í þrist og kláraði Þór 82-79 með magnaðri þriggja stiga körfu. Down Town Brown því réttnefni á kappanum sem var stigahæstur hjá KR í kvöld með 22 stig.
 
Þórsarar þurfa ekki að syrgja þennan leik lengi, þeir áttu góðan möguleika á sigrinum og bökuðu KR mikil vandræði þar sem Grétar Ingi Erlendsson lék fantavel í liði Þorlákshafnar.
 
Stóru mennirnir Hairston og Finnur Atli sendu skyttum sinna liða tóninn er þeir settu sinn hvorn þristinn í upphafi leiks en það voru gestirnir sem voru sprækari í byrjun og leiddu 9-15 eftir þrist frá Grétari Inga en skömmu áður hafði Hairston haltrað af velli og ljóst að meiðslin eru enn að plaga þennan öfluga leikmann og munar um minna í herbúðum Þórs. Finnur Atli gerði 11 af fyrstu 13 stigum KR í leiknum en gestirnir leiddu 24-27 eftir fyrsta leikhluta. Govens var kominn með 15 stig hjá Þór og Finnur 11 hjá KR eftir leikhlutann sem var opinn og fjörugur.
 
Varnir liðanna skánuðu nokkuð í öðrum leikhluta og róðurinn hertist, Sencanski fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu en bætti upp fyrir það í næstu sókn KR með villu og körfu að auki. Martin Hermannsson lokaði svo fyrri hálfleik fyrir KR með sterku gegnumbroti og röndóttir heimamenn leiddu 43-41 í leikhléi.
 
Finnur Atli var með 11 stig hjá KR í háflleik og Sencanski 10. Hjá Þór var Govens með 15 stig en hann skoraði ekki körfu í öðrum leikhluta og Grétar Ingi var kominn með 13 í leikhluta sem KR vann 19-14.
 
Nýting liðanna í hálfleik:
KR: Tveggja 57,6% – þriggja 27,2% og víti 80%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 41,6% – þriggja 46,1% og víti 60%
 
Jón Orri Kristjánsson átti í kvöld fínar rispur hjá KR þar sem Finnur Atli var að glíma við villuvandræði og Ferguson var ekki alveg að finna taktinn. Heldur ,,passívur" í sóknarleik KR þennan leikinn. Martin Hermannsson setti stóru stráka þrist á lokaspretti þriðja leikhluta og kom KR í 63-56 en þá rönkuðu Þórsarar við sér og tóku 7-0 áhlaup til að loka leikhlutanum og jöfnuðu 63-63 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Þórsarar mótmæltu hátt snemma í fjórða leikhluta þegar Janev fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Janev setti upp hindrun sem Skarphéðinn Freyr hljóp á, úr blaðamannastúkunni virtist dómurinn töluvert loðinn en KR setti niður tvö víti og leiddu 71-66.
 
Þór minnkaði muninn í 73-70 þegar Sencanski tók völdin í sínar hendur, smellti kappinn þá niður tveimur risavöxnum þristum með skömmu millibili og KR komst í 79-73. Eiturharðir nýliðarnir voru þó ekki af baki dottnir. Finnur Atli fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu, Þór setti tvö víti og Govens skoraði svo af miklu harðfylgi eftir glæsilega takta við endalínuna og staðan 79-77 þegar 51 sekúnda lifði leiks.
 
Næsta sókn KR rann út í sandinn en Grétar Ingi jafnaði metin í 79-79 fyrir Þór með stökkskoti við endanlínuna þegar um 18 sekúndur lifðu leiks. Það kom svo sem engum á óvart að þegar leiktíminn var að renna út að Joshua Brown væri með boltann í liði KR. Enn eina ferðina skilaði kappinn stálhreðjaskoti og kláraði Þór 82-79 en um leið og boltinn hrundi í gegnum netið voru 0,21 sekúnda eftir og það reyndist of lítill tími fyrir Þór til að jafna. KR leiðir því 1-0 í einvíginu en liðin mætast í næsta leik, leik tvö, í Þorlákshöfn fimmtudaginn 12. apríl næstkomandi.
 
Heildarskor:
 
KR: Joshua Brown 22/5 stoðsendingar, Dejan Sencanski 18/5 fráköst, Finnur Atli Magnusson 13/6 fráköst, Martin Hermannsson 7, Jón Orri Kristjánsson 7/5 fráköst, Robert Lavon Ferguson 6/9 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 6, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Hreggviður Magnússon 1, Björn Kristjánsson 0, Kristófer Acox 0, Ágúst Angantýsson 0.
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 20/7 fráköst, Darri Hilmarsson 10, Matthew James Hairston 8, Blagoj Janev 7, Guðmundur Jónsson 6/8 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 4/4 fráköst, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Emil Karel Einarsson 0.
 
Nýting liðanna í leiknum:
KR: Tveggja 52% – þriggja 32% og víti 87%
Þór Þorlákshöfn: 45% – þriggja 42% og víti 74% (14 af 19)
Munur á liðunum í leikslok 3 stig – 5 stig í súginn á vítalínunni hjá Þór.
 
Byrjunarliðin í kvöld:
KR: Josh Brown, Emil Þór Jóhannsson, Dejan Sencanski, Finnur Magnússon og Robert Ferguson.
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Blagoj Janev og Matthew Hairston.
 
Mynd/ tomasz@karfan.is – Martin Hermannsson átti fínar rispur með KR í kvöld.
Umfjöllun/ nonni@karfan.is
Fréttir
- Auglýsing -