Belgía sigraði Ísland 80-65 í undankeppni Eurobasket í Lotto höllinni í Antwerpen rétt í þessu.
Eftir góða byrjun belga komust íslendingar aftur inní leikinn og munaði einungis einu stigi í hálfleik.
Belgía seig framúr í seinni hálfleik þar sem Ísland var að hitta illa og lítið virtist ganga upp.
Tapið þýðir að Ísland þarf að vinna Belgíu á heimavelli til að komast beint á Eurobasket 2017 en fjögur lið með besta árangur í öðru sæti komast einnig. Næst mætir Ísland Sviss á þeirra heimavelli.
Þáttaskil:
Eftir heldur jafnan fyrri hálfleik gekk allt á aftur fótunum hjá Íslandi og ekkert datt fyrir okkur. Belgía komst í góða forystu sem Íslandi gekk erfiðlega að saxa almennilega á. Þriðju leikhluti tapaðist með tíu stigum og sjálfstraustið virtist hægt og bítandi fara frá íslenska liðinu.
Tölfræðin lýgur ekki:
Munurinn á skotnýtingu liðanna er of mikill. Ísland hittir 16,7% fyrir utan þriggja stiga línuna en Belgía 39%. Auk þess hitti Ísland verr úr vítum og lítið gekk upp. Íslenska liðið náði fleiri stigum undir körfunni og úr hraðaupphlaupum en belgar. Ísland fékk einfaldlega of mikið af körfum á sig eftir langar sóknir þar sem Belgía fann lausnir eftir góðan varnarleik Íslands.
Hetjan:
Hjá Belgíu var Maxime De Zeeuw óstöðvandi fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann setti fyrstu þrjár þriggja stiga körfurnar á upphafsmínútum leiksins og hitti 80% þar fyrir utan. Haukur Helgi var sterkastur leikmanna Íslands með 21 stig og 4 fráköst. Einnig komu þeir Ægir, Kristófer og Sigurður sterkir inn af bekknum.
Kjarninn:
Tapið er staðreynd en þegar allt kemur til alls þá er liðið enn á plani. Fáir bjuggust við því að íslenska liðið færi frá Belgíu með sigur en liðið hefur unnið tvo og tapað einum núna. Svekkelsi dagsins er hinsvegar að Ísland átti bara í fullu tréi við þetta Belgíska lið og það vantar ekki mikið uppá til að sigra þetta lið. Ísland lenti á degi þar sem lítið gekk upp og Belgía átti góðan dag.