spot_img
HomeFréttirDominosdeild karla 2014-2015: Kynning á liðinum

Dominosdeild karla 2014-2015: Kynning á liðinum

Nú styttist í fyrsta leik í Dominosdeild karla og af því tilefni setti Karfan.is sig í samband við alla þjálfara liðanna í deildinni og fékk þá til að fara yfir málin. Hverjir eru farnir, hverjir eru komnir, hvernig gengur undirbúningurinn og hvers er að vænta af komandi leiktíð. Liðin eru birt í stafrófsröð og nöfn þjálfara þeirra eru rituð á eftir nöfnum liðanna. Dominosdeildinn hefst 9. október nk.
 
 
Fjölnir – Hjalti Vilhjálmsson
 
 
Farnir
Andri Þór Skúlason
Emil Þór Jóhannsson (hlé)
Páll Fannar Helgason (hlé)
Komnir
Arnþór Freyr Guðmundsson frá Albacete
Sindri Már Kárason frá Vængjum Júpíters
Pétur Sigurðsson frá Aftureldingu
Valur Sigurðsson frá KFÍ
Þorri Leví Arnarsson frá Val
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur gengið þokkalega. Menn hafa heilt yfir verið duglegir í sumar og eru leikmenn í mun betra ástandi en í fyrra. Við eigum þó langt í land enda 3 vikur í mót.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Ég hugsa að þetta verði skemmtilegt tímabil en ég hugsa að deildin verði soldið tvískipt. Það er töluvert af ungum leikmönnum í liðunum sem ég tel að komi til með að blómstra þegar líður á veturinn.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
KR eru með best mannaða liðið svo eru lið eins og Grindavík, Njarðvík og Stjarnan sem verða sterk í vetur.
 
 
Grindavík – Sverrir Þór Sverrisson
 
 
Komnir
Oddur Kristjánsson frá KR
Magnús Gunnarsson
Þorsteinn Finnbogason
Brandon Roberson
Farnir
Jón Axel Guðmundsson til USA
Ingvi Guðmundsson USA
Hinrik Guðbjartsson USA
Lewis Clinch til Japan
Kjartan Steinþórsson KFí
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Sumarið var nýtt vel og var allt liðið í styrktarþjálfun í allt sumar, æfingar fóru svo á fullt strax í ágúst.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við erum með öflugan hóp og ætlum okkur að gera betur en í fyrra, þetta stefnir í skemmtilegt mót þar sem mörg liðin hafa styrkt sig vel.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Mér finnst erfitt á þessum tímapunkti að telja upp hvaða lið verða sterkust en ég er viss um að KR-ingar verða sterkir og svo eru nokkur önnur lið sem eiga eftir að berjast um efstu sætin.
 
 
Haukar – Ívar Ásgrímsson
 
 
Komnir:
Brynjar Ólafsson (ÍBV)
Alex Francis
Farnir:
Davíð Páll Hermannsson (Keflavík)
Þorsteinn Finnbogason (Grindavík)
Terrence Watson (Ísrael)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur gengið ágætlega. Við erum með breiðan og nokkuð sterkan hóp og það hefur nýtst okkur mjög vel á æfingum. Við höfum verið að spila dálítið af æfingaleikjum og hafa þeir gengið ágætlega en við eigum samt töluvert í land. Við erum enn í undirbúnings fasa og því er kannski eðlilegt að eiga enga toppleiki núna í september.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við komum fullir bjartsýni í þetta tímabil og teljum að við höfum náð þokkalegum árangri síðastliðin vetur. Nú er kominn tími til að stíga skrefið áfram og tryggja liðið í efstu deild og tel ég að mannskapurinn sé til staðar. Okkar markmið er að vera meðal fjögurra bestu liða í vetur. Í fyrra féllum við út í 8 liða úrslitum án þess að ná að vinna leik, þó svo að um jafna leiki hafi verið að ræða. Nú er kominn tími til að fara lengra og ætlum við að sýna hvað í okkur býr í vetur.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Ég held að þetta verði nokkuð jöfn deild. Svona fyrir mót held ég að KR sé með sterkasta liðið, þeir eru drifnir áfram af Pavel sem hefur þá sérstöðu af bakverði að taka mikið af varnarfráköstum og hefja sóknirnar hjá þeim strax og það gerir þá mjög erfiða við að eiga, auk þess fengu þeir besta útlending síðustu tveggja ára. Þar á eftir tel ég að við, Stjarnan, Njarðví og Grindavík verði og hin liðin svo rétt á eftir. Ég held að deildin eigi eftir að verða jöfn og spennandi. Í deildinni þar sem má hafa einn útlending þá skiptir sá leikmaður gríðarlegu máli og held að það sem dettur í lukkupottinn með útlending eigi eftir að standa sig vel. Það er dýrt að lenda í því að þurfa að skipta um útlending, bæði fjárhagslega og svo keppnislega.
 
 
ÍR – Bjarni Magnússon
 
 
Komnir
Kristján Pétur Andrésson
Leifur Steinn Árnason
Chris Gradnigo
Farnir
Hjalti Friðriksson
Nigel Moore
Þorgrímur Kári (meiddur)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur gengið ágætlega, leikmenn hafa æft mjög vel í sumar og eru því í góðu standi. Höfum spilað nokkra æfingaleiki undanfarnar vikur sem og spilað í Lengjubikarnum. Höfum spilað þokkalega í þessum leikjum, sýnt framfarir í hverjum leik sem er gott og vonandi höldum við áfram á þeirri braut.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Mér líst mjög vel á komandi tímabil, mitt fyrsta tímabil sem þjálfari í efstu deild þannig að það er mikil tilhlökkun. Einstaklega samstilltur hópur leikmanna sem gaman hefur verið að vinna með þannig að við förum brattir inn í tímabilið, með það að markmiði að leggja okkur fram á hverjum degi, skemmta okkur og njóta þess að spila körfubolta.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Á erfitt með að meta hvað lið eru sterkust fyrir mótið, hef ekki séð til nærri allra liðana. En núverandi meistarar KR, eru án efa eitt af sterkustu liðunum.
 
 
Keflavík – Helgi Jónas Guðfinnsson
 
 
Komnir:
Damon Johnson
Gunnar Einarsson
Eysteinn Bjarni Ævarsson
Andrés Kristleifsson
Davíð Páll Hermannsson
Aron Freyr Eyjólfsson
Farnir:
Darrel Lewis
Magnús Gunnarsson
Ragnar Albertsson
Arnar Daníelsson
Hafliði Brynjarsson
Gunnar Ólafsson
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur ekki verið alveg nóg góður. Hópurinn var mjög þunnur í ágúst en það hefur verið að lagast. Það á eftir að taka smá tíma fyrir leikmenn að komast inn í nýtt “system” en ég er bjartsýn þar sem ég tel mig vera með góðan efnivið í höndunum.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Væntingarnar eru alltaf miklar í Keflavík og menn stefna alltaf hátt. Við eigum hins vegar eftir að setjast niður sem lið og setja okkur markmið fyrir tímabilið.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Svona fljótt á litið þá held ég að þetta verði bara nokkuð jafnt. KR-ingarnar eru með mjög góðan hóp og það eru einnig Grindvíkingar. Önnur lið sem eiga eftir að koma sterk inn eru Njarðvík, Stjarnan og Tindastóll.
 
 
KR – Finnur Freyr Stefánsson
 
 
Komnir:
Björn Kristjánsson
Finnur Atli
Jón Hrafn
Hörður Helgi
Mike Craion
Farnir:
Martin Hermannsson (USA)
Magni Hafsteinsson
Ólafur Ægisson
Jón Orri Kristjánsson
Demond Watt (England)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur farið rólega af stað enda lykilleikmenn og þjálfarinn á fullu með landsliðinu fram á haustið. Hins vegar hafa menn verið duglegir að æfa í sumar og líta bara prýðilega út.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við ætlum okkur að vera i toppbaráttunni i vetur eins og alltaf. Hópurinn er töluvert breyttur en sterkur kjarni þó áfram á milli ára. Það er skemmtilegt verkefni hjá okkur að slípa okkur saman og bæta okkur með hverjum leiknum.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Fljótt á litið þá eru liðin sem voru í undanúrslitum að styrkja sig eða standa í stað á milli ára á meðan önnur lið hafa misst menn. Það er ánægjulegt og áhugavert að sjá hversu “nýliðarnir” eru að mæta til leiks eftir sumarið. Einnig virðast Haukarnir vera að í stöðugri bætingu og ætla sér örugglega að komast amk skrefi lengur í ár.
 
 
Njarðvík – Friðrik Ingi Rúnarsson
 
 
Farnir:
Elvar Friðriksson
Tracy Smith
Egill Jónasson
Brynjar Guðnason
Komnir:
Rúnar Ingi Erlingsson
Oddur Birnir Pétursson
Ólafur Aron Ingvason
Mirko Virijevic
Dustin Salisbery
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Ágætlega, leikmenn hafa verið duglegir að æfa í sumar og haust og liðið er allt að koma saman þessa síðustu daga.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Það er mikil tilhlökkun í herbúðum Njarðvíkur og metnaður fyrir því að ná langt. Hópurinn er áhugasamur og leggur hart að sér við að búa til gott lið en það er forsenda þess að árangur náist. Væntingar þjálfara eru að liðið komi sér í þá stöðu að vera að berjast um efstu sæti og þá titla sem eru í boði. Við sjáum svo betur heildarmyndina á öllum liðum á næstu dögum og vikum og þá fyrst er hægt mæla sig við þau.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Hef ekki séð öll liðin spila svo ég get varla sagt til um það en veit að deildin verður jöfn og mörg lið sem eiga eftir að láta að sér kveða.
 
 
Skallagrímur – Pétur Ingvarsson
 
 
Komnir
Sigtryggur Arnar Björnsson (Kanada)
Daði Berg Grétarsson (Breiðablik)
Tracy Smith (Njarðvík)
Atli Steinar Ingason (Yngri flokkum)
Magnús Kristjánsson (Yngri flokkum)
Farnir
Sigurður Þórarinsson (meiddur)
Orri Jónsson (Danmörk)
Grétar Ingi Erlendsson (Þór Þorlákshöfn)
Trausti Eiríksson (Danmörk, fram að áramótum)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningur gengur þokkalega það vantar þó mannskap og erfitt að manna æfingahóp.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Ég stefni á að vera með Skallagrím fyrir ofan miðja deild, tel það vera mjög raunhæft þar sem við erum með kjarna leikmanna sem er vel spilandi, bestu áhorfendur og bestu umgjörð í deildinni í vetur.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
KR eru sterkir aðrir eru ekki eins sterkir
 
 
Snæfell – Ingi Þór Steinþórsson
 
 
Farnir
Kristján Pétur Andrésson (ÍR)
Travis Chon III (Grikklands)
Þorbergur Helgi Sæþórsson (Nám)
Hafþór Ingi Gunnarsson (Hættur)
Finnur Atli Magnússon (KR)
Jón Ólafur Jónsson (Hættur)
Óttar Sigurðsson (KV)
Komnir
Almar Hinriksson (Yngri flokkum)
Austin Magnús Bracey (Hetti)
Finnbogi Þór Leifsson (Yngri flokkum)
Hafsteinn Helgi Davíðsson (Yngri flokkum)
Jón Páll Gunnarsson (Yngri flokkum)
Sindri Davíðsson (Þór Akureyri)
William Henry Nelson (USA)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur verið frábrugðin síðustu árum og hópurinn æft minna saman sem lið en síðustu tvö ár. Við fórum ekki erlendis þetta haustið og leikmenn voru meira að æfa sér heldur en í liðsbolta. Uppá síðkastið hefur verið góður stígandi hjá liðinu og nú er bara að bæta í með hverjum degi.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Tímabilið framundan verður forvitnilegt, en það er tilhlökkun hjá okkur að byrja að spila og taka vel á því. Liðið er töluvert breytt og því rennum við nokkuð blint í sjóinn uppá hvar við stöndum í samanburði við önnur lið. Okkar markmið eru skýr en það er að gera betur en í fyrra og ná upp betri stemmningu innan liðsins.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Liðin eru ýmist að styrkjast eða veikjast, en svona fyrirfram þá myndi ég segja að KR-ingar verði mjög sterkir þegar að allir leikmenn eru komnir þar inn, Stjarnan eru þéttir og spennandi verður að sjá Njarðvíkingana. En þar sem ég hef ekki séð öll liðin spila er varla hægt að vera að tjá sig mikið um stöðu þeirra – spjallaðu við mig um mánaðamótin og þá erum við komnir með púlsinn á stöðunni.
 
 
Stjarnan – Hrafn Kristjánsson
 
 
Komnir:
Jón Orri Kristjánsson (KR),
Ágúst Angantýsson (KFÍ),
Jarrid Frye (Ástralía).
Farnir:
Fannar Helgason (ÍA)
Björn Steinar Brynjólfsson
Junior Hairston
Daði Lár Jónsson (USA)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur gengið prýðilega. Styrktarþjálfunin í sumar skilaði miklu og mikil ákefð búin að vera til staðar á æfingum allt undirbúningstímabilið. Einhver lítilsháttar meiðsli hafa verið til staðar hér og þar eins og gengur og gerist auk þess sem Jón Sverrisson er enn að ná sér 100% af hnjámeiðslum en heilt yfir er ég mjög sáttur við ástandið á liðinu. Það er ekkert endilega mikið komið inn af taktíkinni og fullt sem liðið á inni en við erum á áætlun.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Væntingarnar snúa að liðinu og hvernig það þróast gegnum tímabilið. Við ætlum okkur að bæta okkur jafnt og þétt gegnum veturinn og vonandi toppa þegar fer að nálgast vorið. Það er líka verkefni vetrarins að halda áfram þeirri vinnu sem hefur verið í gangi með yngri leikmenn liðsins og sjá þá halda áfram að vaxa og þroskast sem leikmenn.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Það er ekkert hægt að líta fram hjá KR, gríðarlega sterkur mannskapur þar sem hefur reynt þetta allt saman áður. Þeir eru ekkert að fara að sleppa dollunni baráttulaust og líklegastir eins og staðan er núna. Grindvíkingar mæta með nánast sama mannskap og í fyrra og verða sterkir þó meiðsli Lalla setji auðvitað strik í reikninginn. Þetta gæti orðið einhver 5 liða pakki þarna í efri hlutanum sem við Garðbæingar vonumst til að geta verið í en til þess verðum við að halda rétt á spilunum.
 
 
Tindastóll – Israel Martin
 
 
Farnir:
Antoine Proctor
Komnir:
Darrell Lewis
Myron Dempsey
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningstímabilið gengur vel, leikmennirnir eru að leggja hart að sér til að mæta til leiks í besta mögulega forminu þann 9. október þegar tímabilið hefst.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við erum nýtt lið í Domino´s deildinni þetta tímabilið svo við þurfum að leggja hart að okkur dag hvern, hverja viku og í hverjum einasta leik. Þetta lið mun berjast fyrir sigrinum í hverjum einasta leik og við viljum vera virkilega fastir fyrir á heimavelli svo ég vil sjá Síkið fullt á hverjum leik!
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Að mínu mati eru það KR, Stjarnan, Njarðvík og Grindavík. En ég held að þetta tímabil verði jafnara en það síðasta, heimaleikir verða afar mikilvægir fyrir vikið.
 
 
Þór Þorlákshöfn – Benedikt Guðmundsson
 
 
Farnir:
Ragnar Nathanaelsson (Sundsvall)
Vilhjálmur Atli Björnsson
Komnir:
Oddur Ólafsson (Valur)
Grétar Erlendsson (Skallagrímur)
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningur hefur gengið ágætlega en eigum langt í land ennþá.
 
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við erum í uppbyggingu í Þorlákshöfn og erum meira að horfa í að ungir og sprækir strákar springi út en að horfa í eitthvað ákveðið sæti í deildinni. Höfum mikla trú á okkar drengjum að þeir taki stökkið og þá er allt hægt.
 
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
KR verða klárlega sterkastir en lið eins og Stjarnan, Tindastóll, Grindavík og fleiri gætu ógnað þeim.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -