Annar leikur í úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna fór fram í kvöld. Þar mættust KR og Skallagrímur í en fyrri leikur liðanna endaði með sigri Skallagrím. Sigra þarf tvö leiki til að tryggja sæti í Dominos deild kvenna að ári. Skallagrímur var því í kjörstöðu að klára einvígið í kvöld og ná úrvalsdeildarsæti í fyrsta skipti í sögunni.
Gestirnir frá Borgarnesi komu ákveðnari til leiks og náðu fjótt átta stiga forystu. KR var ekki á þeim buxunum að gefa Skallagrím auðveldan leik og héldu muninum í 3-6 stigum út fjórðunginn en staðan að honum loknum var 16-22 Skallagrím í vil.
Skallgrímur tók öll völd í húsinu í öðrum fjórðung, sóknarlega léku þær um hvern sinn fingur auk þess sem KR var með tvö stig á fyrstu fimm mínútum fjórðungsins. Þóra Kristín Jónsdóttir tók frábæra syrpu og var með átta stig í röð. Einnig var Erikka Banks atkvæðamikil og þá sérstaklega í sóknarfráköstum en það var helsti akkilesarhæll KR í fyrri hálfleik.
Þær Perla Jóhannsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir drógu algjörlega sóknarleikinn í fyrri hálfleik og vantaði augljóslega framlag frá fleiri leikmönnum í svo mikilvægum leik. TIl að mynda var Perla með 18 stig af 29 stigum KR í fyrri hálfleiknum, þar af fimm þriggja stiga skot. Staðan þegar haldið var til hálfleiks 29-41 fyrir Skallagrím og verkefni KRinga í seinni hálfleik ansi ærið.
Skallagrímur hélt áfram að leiða en KR voru alltaf í skugganum á þeim og var munurinn um 10 stig allan þriðja leikhlutann.
Þegar fjórði fjórðungur hófst var staðan 41-56 fyrir gestina og þurfti nokkuð til að KR gæti snúið leiknum við. Leikmenn KR geta gengið beinar í baki frá þessum leik þar sem þær héldu alltaf áfram og sýndu fádæma karakter að gefast ekki upp í allt að ómögulegum stöðum.
Heimakonur voru ákveðnar í að gera þetta að spennuleik þar sem þær skoruðu fyrstu tíu stig fjórðungsins og minnkuðu muninn í fimm stig. Varnarleikur liðsins hertist gríðarlega og stemmningin féll algjörlega þeirra megin. Skallagrímur tapaði mörgum boltum, KR tók nánast öll fráköst sem í boði voru og virtist vera sem gestirnir héldu að þær væru búnar að gera nóg. Svo var svo aldeilis ekki.
Skallagrímur setti ekki stig í heilar fimm og hálfa mínútu og varð munurinn fyrir vikið eitt stig og rosalegar lokamínútur framundan. Kristrún Sigurjónsdóttir kom aftur inná í lið Skallagríms þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og gaf liðinu þá ró og yfirvegun sem þurfti.
Skallagrímur seig aftur framúr og leiddi allt til loka leiks. Lokastaðan 56-67 Skallagrím í vil sem tryggir sæti þeirra í úrvalsdeild kvenna að ári. Hjá Skallagrím var Erikka Banks með 17 stig, 23 fráköst og var frábær í leiknum, einnig var Kristrún Sigurjónsdóttir mikilvæg en auk þess að setja 17 stig vóg reynsla hennar og yfirvegun þungt í lokin.
Perla Jóhannsdóttir var stigahæst hjá KR með 25 stig og var þeirra hættulegasti leikmaður sóknarlega, Einnig voru þær Rannveig Ólafsdóttir og Guðrún Gróa sterkar. Barátta og vinnusemi KR var til hreinnar fyrirmyndar í leiknum og í raun á öllu tímabilinu. Liðið hefur tekið miklum framförum á tímabilinu og voru ekki langt frá því að komast upp um deild. Virðingavert var að fylgjast með KR á tímabilinu gefa ungum leikmönnum tækifæri á að sýna sig og þroskast sem leikmenn. Það er ljóst að það mun borga sig til lengri tíma litið.
Baráttan og viljinn var bersýnilega sterkari hjá Skallagrím sem vann flest nágvígi, og voru einbeittari heilt yfir. Það verður að segjast að spilamennska Skallagríms var frábær í kvöld og þá sérstaklega sóknarlega þar sem liðið var frumlegt í að finna lausnir og var boltahreyfingin fín. Metnaður Skallagríms fyrir kvennakörfunni er mikill í ár og var markmiðið ekkert annað en að komast upp á meðal þeirra bestu. Það hefur nú tekist og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Borgarnesi á næstu mánuðum.
Viðtöl eftir leik :
Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Bára Dröfn
Myndir af fögnuði Skallagríms að leik loknum: