Alþjóðaleikar Special Olympics fóru fram í Aþenu í Grikklandi dagna 24.júní – 4. júlí. Þetta var í þrettánda sinn sem mótið fer fram en það er stærsta íþróttamót heims með tæplega 8000 keppendum. Mótið fer fram á fjögurra ára fresti þar sem lögð er áhersla á að allir keppi á jafnréttisgrundvelli og allir eigi kost á því að taka þátt, sama hvar viðkomandi er staddur í sinni íþróttaiðkun.
Ísland tók þátt í átta íþróttagreinum en körfuknattleikur er ekki stundaður á meðal fólks með þroskahömlun á Íslandi svo Ísland hafði ekki lið í körfuboltakeppninni en í íþróttinni er Vlade Divac, serbneski miðherjinn frægi, sérstakur sendiherra Special Olympics.
Keppni í körfubolta, eins og öðrum íþróttum á leikunum, stóð yfir í um það bil viku og að keppni lokinni í körfuboltanum var blásið til ,,Unity-leiks“ með Vlade Divac og félögum. Einstaklingar úr hinum ýmsu liðum léku þá sýningarleik með Vlade Divac en þar bættust í hópinn gamla skyttan eitraða Sam Perkins sem gerði garðinn frægan með LA Lakers og sjálfur Dikembe Mutombo, einhver mesta varnarvél NBA deildarinnar frá upphafi en Mutombo þekkja flestir fyrir að veifa vísifingri sínum framan í sóknarmenn sem vogað hafa sér í teiginn til hans og voru sendir aftur með skottið á milli lappanna.
Á Special Olympics mætast keppendur með þroskahamlanir eða aðrar raskanir í íþróttum og svo er efnt til ,,Unified“ keppna þar sem fötluðum og ófötluðum er blandað saman í lið sem keppa. Í annan stað eru svo ,,Unity“ verkefni þar sem frægir einstaklingar blanda sér í keppnina en í þessum lið er kannski síðri keppni en í ,,Unified“ verkefnunum/keppnunum.
Karfan.is leit við á Unity leikinn hjá Divac og félögum og tók meðfylgjandi myndir.
Fyrir nánari upplýsingar um SO á Íslandi má heimsækja www.ifsport.is
Fyrir nánari upplýsingar um SO á heimsvísu má heimsækja www.specialolympics.org