Þriðji leikur KR og Njarðvíkur í undanúrslitum Domino's deildar karla fór fram í kvöld. Spennan var mikil eftir annan leikinn þar sem Njarðvík hafði náð að saxa niður 24 stiga forystu KR og sigra að lokum. Jöfn sería í 1-1 og stemning fyrir leik. Njarðvíkingar hins vegar mætti seint og ansi illa í leikinn.
KR hóf sókn af krafti með Michael Craion í broddi fylkingar. Craion sótti fast á körfunni, sló eign sinni á teiginn og hirti hvert sóknarfrákastið á fætur öðru. Craion tók alls 7 sóknarfráköst í fyrri hálfleik, en á móti hitti hann afar illa inni í teignum. Njarðvíkingar hins vegar virtust þreyttir eftir langa og erfiða seríu gegn Stjörnunni og margar mínútur hjá lykilmönnum í fyrstu tveimur leikjunum gegn KR. Fimm leikmenn Njarðvíkur hafa spilað yfir 30 mínútur í að meðaltali í leik í úrslitakeppninni og þrír þeirra yfir 35 mínútur. Haukur Helgi Pálsson leiðir liðið með rúmlega 38 mínútur. Rétt er að vekja athygli á því að venjulegur leiktími í körfubolta er 40 mínútur.
Sóknarleikur Njarðvíkur var tilviljunarkenndur og varnarleikurinn illa hreyfanlegur og flatur. KR-ingar skildu gestina eftir í rykinu í upphafi með 24 stig gegn 13 frá Njarðvík. Áður en flautað var til hálfleiks höfðu Njarðvíkingar hins vegar hert varnarleikinn en sóknarleikurinn var lítið skárri. Jeremy Atkinson leiddi hann með mikilvægum skotum utan af velli en hann átti í erfiðleikum inni í teignum sem kristallaðist í mislukkaðri troðslutilraun sem endaði í þriggja stiga körfu frá Helga Má. Troðsla sem hefði mögulega getað hrist hressilega upp í Njarðvíkingum.
Þáttur Helga Más var afar mikilvægur í þriðja hluta þegar hann setti niður þrjá þrista í röð sem gerðu út um allar tilraunir Njarðvíkinga til að komast yfir. Munurinn orðinn 12 stig og KR-ingar komnir með blóð á tennurnar.
Að því sögðu virtist ekkert geta stöðvað díselvélina úr Vesturbænum. Litlaus sóknarleikur Njarðvíkinga dugði skammt auk þess sem þeir virtust ekki geta varið veiku hliðina á einn eða annan hátt – sem KR refsaði fyrir trekk í trekk. KR hélt Njarðvíkingum í samtals 54 stigum og 30% skotnýtingu en það er uppskrift sem á ekki eftir að ganga upp fyrir grænklædda. Sannfærandi 72-54 sigur KR varð raunin og leiðir Vesturbæjarliðið 2-1 í viðureigninni
Færa má sannfærandi rök fyrir því að Darri Hilmarsson hafi slökkt á Hauki með frábærum varnarleik auk þess sem varnartaktík Finns Freys á Hauk í leiknum gekk fullkomlega upp. Þreyta hlýtur samt að vega þungt í þessu samhengi. Haukur var aðeins skugginn af sjálfum sér í þessum leik.
Pavel Ermolinski gat ekki keypt sér körfu utan af velli en maðurinn spilaði eins og engill þar fyrir utan. Stýrði sóknarleik KR með prýði, en 14 fráköst og 11 stoðsendingar segja bara hálfa söguna. 3 stolnir boltar þar ofan á en hann leiddi KR í framlagi ásamt Helga Má með 19 stig. Michael Craion var að hitta skelfilega og safnaði sóknarfráköstum á meðan en hann endaði með 12 slík og 18 í heildina.
Hjá Njarðvík var Jeremy Atkinson atkvæðamestur með 22 stig. Haukur Helgi var drjúgur í spili Njarðvíkur en hann skoraði fremur lítið eða aðeins 7 stig. Hann tók aðeins 9 skot í leiknum en þau hafa verið um 17 að meðaltali í vetur. Logi Gunnarsson átti erfitt uppdráttar með aðeins 2 stig á yfir 30 mínútum.
Njarðvík þarf nú að taka á honum stóra sínum í Ljónagryfjunni á miðvikudaginn. Tveir dagar verða þeim kærkomnir því þeir þurfa á allri þeirri hvíld sem þeir geta fengið.
KR-Njarðvík 72-54 (24-13, 14-18, 18-10, 16-13)
KR: Darri Hilmarsson 16, Michael Craion 15/18 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Már Magnússon 14/8 fráköst/3 varin skot, Brynjar Þór Björnsson 14/4 fráköst, Björn Kristjánsson 11/4 fráköst, Pavel Ermolinskij 2/14 fráköst/11 stoðsendingar, Arnór Hermannsson 0, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Snorri Hrafnkelsson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0.
Njarðvík: Jeremy Martez Atkinson 22/5 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 9, Ólafur Helgi Jónsson 8/8 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 7/9 fráköst/7 stoðsendingar, Adam Eiður Ásgeirsson 2, Logi Gunnarsson 2/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hjörtur Hrafn Einarsson 2/7 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 2, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Oddur Birnir Pétursson 0.
Mynd: Pavel Ermolinski hitti illa en stýrði samt sóknarleik KR með stakri prýði. (Bára Dröfn)