Leikmaður Los Angeles Lakers, Dion Waiters, tjáði sig á dögunum um kvíða og þunglyndi sem hann hefur gengið í gegnum á síðastliðnu árinu. Þetta gerði hann í bréfi á The Players Tribune.
Skrifar hann “Jafnvel þeir allra hörðustu ganga í gegnum þunglyndi. Stundum þarf að minna heiminn á að við erum ekki ofurhetjur. Ég kom frá botninum. Hef séð þetta allt. Þegar ég kem heim á kvöldin, þá er ég alveg eins og þú. Ég fer í gegnum þunglyndi, alveg eins og þú. Ég fer í gegnum kvíða, alveg eins og þú. Síðasta eina og hálfa árið hef ég gengið í gegnum mikið”
Waiters kom til Lakers frá Miami Heat eftir áramótin. Útskýrir hann að samband hans við Heat hafi súrnað með tímanum vegna þunglyndisins. Verst varð það þegar að Waiters fékk kvíðakast í flugi með liðinu eftir að hafa neytt kannabis-sælgætis, en hann fékk í kjölfarið 10 leikja bann frá deildinni.
Sagði Waiters “Flugvélaatvikið í Miami var mér að kenna. Ég tek fulla ábyrgð á því. Það var heimskulegt af minni hálfu, engum blöðum um það að fletta. Það klikkaða er, að allt mitt líf hef ég verið leiðtogi. Ég er ekki fylgjandi. Pat Riley (Framkvæmdarstjóri Heat) þekkir mig. Hann veit að ég nota ekki fíkniefni. Það má þó vera að þegar fólk fari í gegnum dökka tíma, þá slysist það til að gera hluti sem það myndi aldrei annars gera”
Waiters lýsti þunglyndi sínu sem gervi hamingju. Sagði að hann hafi logið að vinum sínum, fjölskyldu og jafnvel sjálfum sér hvernig sér liði í raun og veru. Þá sagðist hann hafa látið það vera að taka upp símann, til þess að reyna að sneiða hjá því að lesa hvað fólk var að segja um hann.
Miami Heat settu Waiters í heildina í 17 leikja bann á síðasta tímabili, líkt og áður var tekið fram voru það tíu útaf flugvélaatvikinu, sex leiki fyrir að hafa sagst vera veikur til þess að sleppa við æfingar og einn leikur fyrir ótilgreindar ástæður. Þeir skiptu honum svo eftir áramótin til Memphis Grizzlies, sem gerðu upp samning hans, svo hann gæti skrifað undir nýjan hjá topplið Vesturstrandarinnar, Los Angeles Lakers.
Waiters náði ekki að spila leik fyrir Lakers, vegna þess að tímabilinu var frestað útaf Covid-19 faraldrinum. Samningur hans við Lakers, leiddi hann aftur í lið til LeBron James, en þeir léku áður saman hjá Cleveland Cavaliers árið 2015.
Sagði Waiters um samband sitt við James “Ég ætla að vera heiðarlegur. Í þá Cleveland daga var ég ennþá barn. Virkilega vitlaust barn, að reyna að skilja hvað var í gangi. Bron reyndi að kynna mig fyrir allskonar mat og víni. Ég var Philly Philly. Ég var hrár, en Bron tók mig undir vænginn sinn og nú, þessum árum seinna erum við aftur komnir á þann stað. Minna hár, meiri viska”
Waiters átti ekki sjö dagana sæla þegar hann og James léku saman 2015. Skilaði aðeins 11 stigum, 2 stoðsendingum og var með 40% heildarskotnýtingu og 26% þriggja stiga nýtingu. Aðeins einn af örfáum sem skilaði verri skotnýtingu með Lebron James, en leikmenn verða venjulega betri við það að spila með honum. Pirringurinn varð líka áberandi hjá Waiters, sem kannski er best lýst í þessu atviki þar sem að hann fékk ekki boltann á réttum tíma frá James og var ekki parsáttur við það.
Mikið vatn hefur þó runnið til sjávar síðan. Sé síðasta tímabil tekið út, þar sem Waiters spilaði aðeins 3 leiki fyrir Heat, hefur hann skilað um 15 stigum að meðaltali á um 25 mínútum í leik og verið með rétt undir 40% þriggja stiga nýtingu. Samningur hans við Lakers þó aðeins upp á eitt ár, en óráðið er hvort, hvernig eða hvenær þetta tímabil sem er að líða endar.
Waiters virðist þó vera vel slakur heima þessa dagana ef eitthvað er að marka þetta skemmtilega hjólaskautamyndband sem hann lét frá sér.