Þór Þorlákshöfn hefur ákveðið að skipta út einum Bosman leikmanni sínum fyrir áframhaldandi átök í Dominosdeild karla. Dino Butorac mun vera á leiðinni til Þorlákshafnar til að taka við af Vladimir Nemcok sem hefur ekki þótt standa undir væntingum. Dino mun aðstoða Friðrik Inga og hans sveit í að sækja sigra á tímabilinu.
Leikmaðurinn króatíski, sem varð 29 ára í byrjun október, hefur unnið titil í bosnísku deildinni (2012) og tvo titla í þeirri sænsku (2014 og 2015). Í sænsku deildinni spilaði hann fyrir Södertälje Kings og skilaði á tveimur titla árum þar 8.7 stigum, 3.1 fráköst og 1.6 stoðsendingar að meðaltali í leik (99 leikir yfir tvö ár).
Dino Butorac spilaði á seinasta ári fyrir Tindastól þar sem að hann skilaði 11.4 stigum, 3.9 fráköstum og 3.4 stoðsendingum í deildar- og úrslitakeppninni (27 leikir). Dino var stór biti í fyrra fyrir Tindastól og átti þátt í ævintýralega góðu gengi liðsins fyrri hluta tímabilsins. Hann þurfti að sætta sig við magnað tap í oddaleik í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar, einmitt gegn Þór Þorlákshöfn.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Butorac gengur á öðru ári sínu á klakanum og hvort að hann sé púsluspilið sem að Þórsarar þurfa til að blanda sér frekar í baráttuna í Dominosdeildinni.