Njarðvík skellti Þór Akureyri 94-80 í lokaumferð deildarkeppninnar í Bónus-deild kvenna.
Sigur Njarðvíkinga var lítið í hættu þetta kvöldið en þær tóku snemma nokkuð afgerandi forystu sem Þórsarar náðu ekki að vinna niður. Með sigrinum náði Njarðvík að koma sér í 2. sæti deildarkeppninnar en nú hefst ný keppni sem er einföld umferð í A og B hluta í Bónusdeildinni og að þeim leikjum loknum verður ljóst hvaða lið mun standa uppi sem deildarmeistari.

Njarðvíkingar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Dinkins lokaði fyrsta leikhluta með þrist fyrir heimakonur sem leiddu 24-17 en það virtist bara kynda enn frekar undir Ljónynjum sem voru mun sterkari í 2. leikhluta og juku muninn í 21 stig eða 48-27 í hálfleik.
Þórsarar voru í mesta basli með Njarðvíkurvörnina í fyrri hálfleik, áttu erfitt að berja sér leið upp að körfunni og hittu illa eða 1-14 í þristum í fyrri hálfleik. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir gestina voru Maddie og Eva báðar með 3 villur eftir fyrri hálfleik.
Hjá Njarðvík voru Dinkins og Hersler sterkar, Dinkins með 16 stig í fyrri og Hersler 15 og þá kom Krista Gló með tvo sterka þrista af bekknum fyrir Njarðvík svo flest var að ganga vel smurt hjá heimakonum fyrstu 20 mínútur leiksins.

Forysta Njarðvíkinga var enn 21 stig að loknum þriðja leikhluta en þó augljós batamerki á gestunum, þristarnir voru farnir að detta og svæðisvörn Þórsara var að reynast Njarðvíkingum snúin. Staðan þó engu að síður 74-53 fyrir Njarðvík eftir þriðja leikhluta og talsvert sem mátti úrskeiðis fara ef heimakonur ætluðu að láta stigin tvö frá sér.
Þórsarar áttu flottar rispur í fjórða leikhluta, voru í raun betri aðilinn þessar tíu mínútur en skaðinn var þegar skeður. Njarðvíkingar voru ekkert á því að láta sigurinn frá sér og kláruðu verkið 94-80.
Dinkins lauk leik með 29 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar og Paulina Hersler var með 27 stig og 7 fráköst hjá Njarðvík. Hjá gestunum í Þór var Amandine með 24 stig en Maddie var með enn eina tröllatvennuna með 21 stig og 19 fráköst og 6 stoðsendingar þar að auki.
Viðtöl væntanleg