Njarðvík tók á móti Keflavík og var þetta annar leikur liðanna með viku millibili. Í vikunni sem leið tókst Njarðvík að slá Keflavík út úr VÍS-bikarnum þar sem Keflvíkingar eru ríkjandi meistarar. Í kvöld buðu Reykjanesbæjarliðin upp á annan spennuslag og á nýjan leik voru það Njarðvíkingar sem fóru með sigur frá borði, 98-88.
Keflavík var í kvöld án Katrina Eliza Trankale sem samkvæmt heimildum okkar á Karfan.is hefur leikið sinn síðasta leik með Keflavík.
Njarðvíkingar voru sprækari á upphafsmínútum leiksins og leiddu 25-17 eftir fyrsta leikhluta. Dinkins með 7 stig hjá Njarðvík eftir fyrsta leikhluta en Dickey 6 stig hjá Keflavík.
Keflavík beit vel frá sér í öðrum leikhluta, opnaði hann 12-0 og komust yfir 25-29 áður en Njarðvík tókst að skora í leikhlutanum. Keflavík vann á endanum leikhlutann 17-26 og leiddi því 42-43 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var fjörugur eins og fyrstu tveir, Dinkins fór mikinn í liði Njarðvíkinga og var komin með 29 stig eftir 30 mínútna leik og Njarðvík leiddi 70-65 eftir þrjá leikhluta. Sara Rún var að gera vel Keflavíkurmegin með 15 stig eftir þriðja og fjörugur fjórði leikhluti í vændum.
Dinkins hélt áfram að fara mikinn í fjórða leikhluta og lauk leik með 41 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Bo Frost gerði 18 stig og gaf 2 stoðsendingar og þá var Ena Viso með 15 stig og 7 stoðsendingar. Hjá Keflavík var Dickey með 38 stig og 11 fráköst og Sara Rún Hinriksdóttir bætti við 20 stigum, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.
Bæði lið eru þar með komin í jólafrí en síðustu leikir í Bónusdeild kvenna fyrir jól fara fram 17. og 18. desember næstkomandi.