20:41
{mosimage}
Knattspyrnukappinn Alessandro del Piero hjá Juventus lagði á sig 1400 km ferðalag til að hitta Kevin Garnett og félaga í liði Boston þegar þeir voru við æfingar í Róm á mánudaginn.
Boston-liðið er nú á æfingaferðalagi um Evrópu þar sem það spilar leiki á Ítalíu og á Englandi. Del Piero er mikill körfuboltaaðdáandi og lét sig ekki muna um langt ferðalag til að hitta þá Paul Pierce, Kevin Garnett og Ray Allen í nokkrar mínútur. Hann viðurkenndi reyndar að hann hefði haldið með LA Lakers frá því hann var ungur, en það kom ekki í veg fyrir að þeir félagar skemmtu sér vel.
Körfuboltamennirnir sýndu lipra takta og héldu bolta á lofti ásamt Del Piero. Garnett er mikill íþróttamaður og stóð sig vel í fótboltanum, eins og reyndar Allen sem ólst að hluta til upp í Evrópu.
Sömu sögu verður ekki sagt af Paul Pierce, en hann afrekaði að þruma boltanum í bringuna á Garnett – rétt við andlitið á honum.
Andinn er mjög góður í liði Boston þessa dagana og þar á bæ eru miklar væntingar bundnar við komandi tímabil.
Mynd: GettyImages