spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaDeildarmeistararnir komnir með bakið upp að vegg

Deildarmeistararnir komnir með bakið upp að vegg

Grindavík lagði deildarmeistara Hauka í Smáranum í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita, 87-73.

Grindavík eru því komnar með 2-0 forystu í einvíginu, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í undanúrslitin.

Leikur kvöldsins var nokkuð jafn og spennandi á upphafsmínútunum, en að fyrsta fjórðung loknum voru það heimakonur í Grindavík sem voru skrefinu á undan, 23-18. Undir lok fyrri hálfleiksins eru Haukar aldrei langt undan og ná þær að jafna og komast yfir stuttlega í öðrum fjórðungnum, en Grindavík nær þó forystunni aftur og leiða þær með sex stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-38.

Í upphafi seinni hálfleiksins tekur Grindavík öll völd á vellinum. Ná að halda Haukum í aðeins 11 stigum í þriðja leikhlutanum á meðan þær setja sjálfar 28 stig. Eru því komnar með væna forystu fyrir lokaleikhlutann, 72-49.

Deildarmneistararnir reyna hvað þær geta til að skjóta sig inn í leikinn í fjórða leikhlutanum og þeim tekst það næstum því. Næst komast Haukar 13 stigum frá heimakonum, en á lokamínútunum gerir Grindavík vel. Ná að halda fengnum hlut nánast og vinna að lokum með 15 stigum, 87-73.

Atkvæðamestar fyrir Grindavík í leiknum voru Isabella Ósk Sigurðardóttir með 22 stig, 18 fráköst, 3 stolna bolta, 3 varin skot og Daisha Bradford með 22 stig og 8 stoðsendingar.

Fyrir Hauka var Lore Devos atkvæðamest með 39 stig og 10 fráköst. Henni næst var Rósa Björk Pétursdóttir með 13 stig og 7 fráköst.

Grindavík því komnar í 2-0 í einvíginu og freista þess að sópa Haukum í sumarfrí í næsta leik liðanna, en hann fer fram komandi þriðjudag 8. apríl.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -