Nýr leikmaður Grindavíkur DeAndre Kane er kominn með leikheimild með liðinu fyrir komandi tímabil í Subway deild karla.
Samkvæmt heimildum Körfunnar mun hinn bandarísk-ungverski leikmaður lenda í dag og þó ekki sé alveg ljóst hvort hann muni leika, verður hann allavegana kominn með heimild til að gera það þegar að Grindavík tekur á móti Hetti í fyrstu umferð deildarinnar í kvöld.
DeAndre er 33 ára 196 cm bakvörður sem síðast lék fyrir Peristeri í úrvalsdeildinni í Grikklandi tímabilið 2019-20, en hann á að baki gífurlega langan og farsælan feril sem atvinnumaður í Evrópu þar sem hann hefur leikið fyrir félög í Grikklandi, Belgíu, Spáni, Ísrael og Þýskalandi.