spot_img
HomeFréttirDeAndre Jordan áfram hjá LA Clippers

DeAndre Jordan áfram hjá LA Clippers

Dramatískri nótt í NBA deildinni er nú lokið. Nótt þar sem Doc Rivers, þjálfari LA Clippers, og nokkrir leikmenn liðsins héldu miðherjanum DeAndre Jordan í gíslingu þar til eftir miðnætti en fram að því var óheimilt að ganga formlega frá samningum í NBA deildinni.

 

Jordan hafði gengið frá munnlegu samkomulagi við Dallas Mavericks um fjögur ár og yfir $80 milljónir. Jordan vildi yfirgefa Clippers liðið vegna óánægju með þátttöku sína í sóknarleik Clippers og einelti sem hann upplifði af hálfu Chris Paul, leikstjórnanda liðsins.

 

Þessi ákvörðun Jordan setti áform Doc Rivers í uppnám en liðið fór langt í úrslitakeppninni í vor og vonir eru bundnar við enn betri árangur á komandi vetri. Félagið hefur meðal annars gengið frá samningi við Paul Pierce sem vann NBA titil með Doc Rivers í Boston 2008.

 

Á elleftu stundu hoppuðu Doc Rivers, Steve Balmer eigandi liðsins, Blake Griffin, JJ Redick, Pierce og einnig Chris Paul upp í flugvél og drifu sig til Houston þar sem Jordan á heimili. Þar læstu þeir miðherjann inni í eigin húsi þar til lokafresturinn til að semja hafði runnið út. Stjórnendur Dallas Mavericks fengu ekki einu sinni að heyra í Jordan í síma á meðan á þessu stóð.

 

Allt þetta gerðist í beinni útsendingu á Twitter eins og meðfylgjandi myndir sýna.

 

Jordan gekk svo frá 4 ára samningi við Clippers upp á $87,6 milljónir sem er það hæsta sem hann má fá samkvæmt kjarasamningi NBA deildarinnar. Samningurinn er með uppsagnarákvæði fyrir Jordan eftir þriðja árið. Þar að auki er innifalið í samningnum ákvæði um 15% hækkun ef Clippers ákveða að senda Jordan frá sér í skiptum fyrir annan leikmann (e. Trade Kicker).

 

Dallas Mavericks hins vegar sitja eftir með sárt ennið og allt í einu bíðum við öll með eftirvæntinu eftir leikjum milli þessara liða á næstu leiktíð.

 

 

 

 

 

 

Mynd: USA Today Sports

Fréttir
- Auglýsing -