Spánn lagði Ísland í Laugardalshöllinni í kvöld í lokaleik undankeppni EuroBasket 2023, 34-88. Spánn hafði þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins og farmiða á lokamótið fyrir leik kvöldsins, en þær sigruðu alla leiki undankeppninnar. Ísland hafnaði hinsvegar í þriðja sæti riðilsins, með einn sigur og sex töp í keppninni.
Fyrir leik
Þetta mun vera seinasti leikur liðsins í undankeppninni og sá seinni gegn Spáni. Áður hafði Ísland tapað fyrir þeim úti í Huelva þann 22. nóvember síðastliðinn, 120-54. Í þeim leik var það Hildur Björg Kjartansdóttir sem dró vagninn fyrir Ísland með 13 stig, 5 fráköst og Sara Rún Hinriksdóttir bætti við 15 stigum.
Leikurinn er einn tveggja í þessum síðasta glugga liðsins í undankeppinni, en nú fyrir helgi tapaði Ísland fyrir Ungverjalandi úti í Miskolc, 89-49.
Þar sem að Ungverjaland hafði lagt Rúmeníu fyrr í dag var það öruggt að Ísland myndi enda í þriðja sæti riðilsins, en Spánn voru öruggar með efsta sætið og Ungverjaland annað.
Gangur leiks
Eftir nokkuð erfiða byrjun sóknarlega, þar sem Spánn komst í 2-12, kemst íslenska liðið af stað um miðbygg leikhlutans. Þær spænsku ná þó nánast að halda í fenginn hlut út þann fyrsta og leiða með 8 stigum fyrir annan, 10-18. Ólíkt leiknum fyrir helgi úti í Ungverjalandi hafði íslenska liðinu tekist að halda Spáni í 18 stigum í hlutanum, án þess að fá á sig of margar villur, en þegar 10 mínútur voru búnar voru þær aðeins komnar með þrjár. Spánn nær enn betri tökum á leiknum í upphafi annars leikhlutans. Eru snöggar að keyra forystu sína yfir 20 stigin og á Ísland í mestu vandræðum með að koma stigum á töfluna. Diljá Ögn Lárusdóttir á þó gífurlega flotta innkomu af bekknum fyrir Ísland undir lok hálfleiksins, er stigahæst í liðinu í hálfleik með 6 stig, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik leiðir Spánn með 26 stigum, 20-46.
Áhyggjuefni fyrir Ísland var að tveir af þremur stórum leikmönnum liðsins lentu í hnjaski í fyrri hálfleiknum, Ísabella Ósk Sigurðardóttir og Eva Margrét Kristjánsdóttir, en hvorug þeirra lék meira í leiknum. Upphaf seinni hálfleiksins var gífurlega erfitt fyrir íslenska liðið, þar sem nokkuð augljóst var að þær söknuðu stærri leikmanna liðsins. Spánn vinnur þriðja leikhlutann gífurlega sannfærandi, 6-24, og leiðir með 44 stigum fyrir lokaleikhlutann, 26-70. Íslenska liðið gerir ágætlega að missa ekki dampinn í fjórða leikhlutanum þó leikurinn sé meira og minna löngu farinn. Tapa honum þó með 10 stigum og leiknum að lokum því með 54 stigum, 34-88.
Kjarninn
Þjálfari íslenska liðsins og leikmenn höfðu talað um það fyrir þennan síðasta glugga keppninnar að markmiðið væri að gera betur gegn bæði Ungverjalandi og Spáni heldur en í fyrri leikjum keppninnar. Stigalega tókst það á móti Ungverjalandi fyrir helgina, líkt og þeim tókst það í kvöld gegn Spáni, þó töpin hafði að sjálfsögðu bæði verið gríðarlega stór.
Þá lék liðið á 8 leikmönnum sem höfðu leikið 10 landsleiki eða færri í þessum glugga og því er auðvelt að áætla að þarna hafi næsta kynslóð landsliðsins fengið mikilvæga leiki, en aðeins tveir leikmenn höfðu leikið fleiri en 20 leiki og 26 ára Sara Rún Hinriksdóttir var aldursforseti liðsins.
Sigurinn gegn Rúmeníu heima í síðasta glugga var í endann nokkuð mikilvægur fyrir Ísland, sem vegna hans endaði í 3. sætinu, en það er besti árangur liðsins í keppninni.
Atkvæðamestar
Diljá Ögn var best í liði Íslands í dag með 14 stig, 4 fráköst, stolinn bolta og varið skot. Henni næst var Þóra Kristín Jónsdóttir með 5 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.
Myndasafn (Márus Björgvin)
Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil