Fyrir leikinn
Í kvöld tóku nýliðarnir frá því í fyrra á móti nýliðunum í ár í fyrsta leiknum milli Breiðabliks og KR síðan að bæði lið voru í 1. deild kvenna fyrir tveimur tímabilum síðan. Breiðablik hafði ekki unnið leik á tímabilinu á meðan að KR voru næstefstar með 3 sigra í fjórum leikjum.
Gangur leiksins
KR byrjaði leikinn með krafti og komst fljótt í 2-7 áður en Blikar settu loks nokkrar körfur sjálfar og tóku forystu með 8-7. Þá hertu Vesturbæjarstelpurnar sig og skoruðu næstu 10 stig leikhlutans án þess að Breiðablik gat svarað með nokkurri körfu. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var því 8-18 fyrir gestunum.
Kelly Faris var fljót að koma sér í villuvandræði en framlag stelpnanna af bekknum vóg upp á móti því. KR lenti líka í miklum vandræðum með sóknarfráköst heimaliðsins þannig að munurinn fór niður í 2 stig á fjórum mínútum. Þá tóku KR-ingar sig aftur til og hófu að keyra á Blika í hraðaupphlaupum. Þær skoruðu nokkrar auðveldar körfur á sama tíma og Blikar fóru að hökta gegn sterkri vörn KR. Staðan í hálfleik var því 31-42 þegar liðin héldu inn í búningsklefana í hálfleik.
Svipað fyrirkomulag var með gangi liðanna eftir hálfleik; Breiðablik náði að komast nær KR með nokkrum góðum sóknum en þá settu KR-ingar hausinn niður fyrir sig og juku muninn enn á ný. Staðan eftir þriðja fjórðung var því 44-54, KR í vil.
Lítið breyttist hjá liðunum í lokafjórðungnum og þrátt fyrir nokkur lítil áhlaup hjá Kópavogsstúlkunum gátu KR-ingar alltaf svarað þeim. Blikar náðu loks að hitta úr nokkrum þriggjum á lokamínútunni og úr varð löng lokamínúta sem var síðan ekk meira spennandi en svo að gestirnir unnu, 66-73.
Lykillinn
Kiana Johnson og Orla O’Reilly voru helvíti drjúgar fyrir KR í kvöld, enda tóku þær um það bil helming allra skota hjá liðinu sínu. Kiana fór aldrei út af og lauk leik með 26 stig, 13 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hún var framlagshæst allra á vellinum með 36 framlagspunkta. Orla skoraði 19 stig og fiskaði 5 villur. Kelly Faris var best fyrir Blikana, en hún skoraði 14 stig, tók 13 fráköst og lauk leik með +8 í plús/mínus, sú eina innan liðsins síns með jákvæða plús/mínus tölfræði.
Tölfræðin
Tölfræðin sýnir að vörn KR var góð og þær voru líka duglegar að refsa Blikum fyrir mistökin sín. KR-ingar skoruðu 18 stig eftir tapaða bolta hjá Breiðablik og 22 stig úr hraðaupphlaupum (þó sum þessi stig eru þau sömu). Blikastelpur náðu næstum því að halda sér inni í leiknum með sóknarfráköstum og öðrum tækifærum, en þær tóku tvöfalt fleiri sóknarfráköst en KR (12 á móti 6) og skoruðu 10 stig eftir sóknarfráköst gegn aðeins tveimur þannig stigum hjá gestunum.
Kjarninn
Leikgleðin virtist ekki vera Blikamegin í kvöld og erlendur leikmaður þeirra var aftur í villuvandræðum í þessum leik. Hún er sú eina í liðinu sínu með jákvæða plús/mínus-tölfræði svo maður spyr sig hvort að liðið fari að standa sig betur þegar að hún fer að fækka villunum sínum. Það verður þó ekki tekið af KR að þær spiluðu góða vörn og þrátt fyrir einbeitingarleysi á köflum sem leiddi til áhlaupa hjá Breiðablik þá náðu þær svart- og hvítklæddu að krækja sér í útisigur í Smáranum.
Samantektin
Blikar eru þá enn án sigurs eftir fimm umferðir á meðan að KR eru áfram í öðru sæti fyrir neðan Snæfell, sem hefur aðeins betri stigatölu en þær. Breiðablik mun vinna einhverja leiki í þessari deild og það er alls ekki víst að KR verði svona ofarlega þegar líður að jólum. Eitt er víst að úrvalsdeild kvenna er miklu meira spennandi en hún var áður og ekkert er öruggt, meira að segja í leikjum jafndaufum sem þessum!
Tölfræði leiks
Myndasafn: Bjarni Antonsson