Hinn fertugi Darrel Keith Lewis hefur ákveðið að skipta um lið á norðurlandi og spila með Þór Akureyri á næsta tímabili.
Þetta var tilkynnt á heimasíðu Þórs fyrr í kvöld en orðrómur þess efnis hefur verið hávær síðustu daga.
Hann hefur spilað mörg tímabil á Íslandi en hefur leikið með Tindastól síðustu tvö tímabil. Hann skilaði 19,5 stigum, 5,9 fráköstum og 4,1 stoðsendingu á síðasta tímabili.
Áður hafði hann spilað með Grindavík og Keflavíkur en eins og fyrr segir verður hann 41 árs á næsta ári. Hann hefur verið kallaður rauðvínið á Sauðárkróki en hann hefur ef eitthvað er orðið betri með aldrinum.
Á heimasíðu Þórs segir í heild:
Lewis hefur leikið með Tindastóli undanfarin 2 ár og líkar greinilega vel á norðurlandi. Hann er á 41 aldursári og hefur einnig leikið með Grindavík og Keflavík hér á landi. Hann fékk íslenskt ríkisfang áramótin 2004-2005.
"Lewis kemur með mikla reynslu inn í hópinn sem mun nýtast vel. Þrátt fyrir að vera fimmtugsaldri er hann frábær alhliða leikmaður sem getur spilað margar stöður á vellinum og gefur töluvert yngri leikmönnum ekkert eftir. Hann hefur verið einn allra besti leikmaðurinn deildarinnar undanfarin ár og hugsar vel um skrokkinn á sér. Það er líka gaman fyrir mig að hafa einn sem er á mínum aldri til að tala við um allt í gamla daga," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari liðsins, um nýja liðsmanninn.