Darko Milicic mun ekki snúa aftur til Boston Celtics á nýju tímabili og mun þess í stað leika með Red Star í Serbíu en Milicic gerði tveggja ára samning við Rauðu Stjörnuna. Gaman verður að sjá hvort að þessi mestu vonbrigði NBA deildarinnar síðasta áratuginn muni skila meiru til Rauðu Stjörnunnar en hann hefur gert með þeim sex NBA liðum sem hann spilaði með á 10 ára ferli sínum í NBA.
Darko var valinn annar í nýliðavalinu 2003 af Detroit Pistons á eftir LeBron James og á undan mönnum eins og Dwane Wade, Chris Bosh og Carmelo Anthony. Darko en fékk þó ekki mikinn séns hjá Larry Brown þáverandi þjálfara Pistons.
Ákvörðun Browns að nota frekar reyndari leikmenn en að gefa hinum unga Milicic séns hafði mikil áhrif á hann. Sat hann löngum stundum á bekknum og í raun horfði á liðsfélaga sína vinna meistaratitilinn þegar Pistons unnu Lakers í fimm leikjum árið 2003.
Darko átti einnig erfitt með að fylgja þeim kröfum sem fylgdi því að vera „gaurinn“ sem var valinn næstur á eftir LeBron James. Hann náði aldrei á þessum 10 árum að spila 25 mín að meðaltali á tímabili og varð aldrei þessi leikmaður sem ætlast var til af honum. 6 stig og 4,2 fráköst eru meðaltalstölur fyrir öll tímabilin í NBA deildinni og 53 milljónir dollarar eru það sem hann hlaut í laun fyrir vikið.
Darko yfirgaf Boston í vetur til að snúa aftur til Serbíu og sinna veikri móður sinni. Doc Rivers þjálfari Boston sá ekkert því til fyrirstöðu að stöðva Darko í ákvörðun sinni enda var hann orðinn mjög ólíkur sjálfum sér og í raun og veru bara með heimþrá.
Darko spilaði með Hemofarm í Serbíu áður en hann var valinn af Detroit 2003. Eftir árin hjá Detroit flakkaði hann á milli liða og spilaði með Orlando, Memphis, New York, Minnesota og að endingu Boston.
Nú er bara spurning hvort að Darko Milicic komi til með að standa sig nú þegar hann er kominn til heimalandsins eða hvort hann komi til með að halda áfram að valda vonbrigðum.