spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaDarbo og Dani hrifsuðu stigin af Grindavík

Darbo og Dani hrifsuðu stigin af Grindavík

KR-ingar fengu heimsókn úr Grindavíkinni í kvöld í einhverri umferð Subway-deildarinnar. Þeir svarthvítu hafa orðið fyrir alls kyns skakkaöllum í vetur en náðu ef til vill til botns í Kópavoginum í síðasta leik. Heyrst hefur að liðið tefli fram einum ef ekki tveimur nýjum erlendum leikmönnum í kvöld, einu stykki Finna og hugsanlega Kana. Það eru því mögulega bjartari tímar framundan í Vesturbænum.

Gestirnir úr Grindavík hafa hagað sér eins og manneskja með klofinn persónuleika og hlutirnir hafa ýmist verið í ökkla eða eyra hjá þeim. Verði betri persónuleikinn við stjórnvölinn í kvöld hlýtur liðið að gera sér miklar vonir um að ná stigunum tveimur með sér heim að leik loknum.

Kúlan: ,,Hvernig í andskotanum á ég að spá fyrir um svona leik? Gestirnir eins og náungi með klofinn persónuleika og enginn veit hver mun spila fyrir heimamenn! Hendi 85-92 útisigri á þennan.“

Byrjunarlið

KR: Brilli, Bjössi, Darbo, Dani, Lindbom

Grindavík: Ivan, Óli, Naor, EC, Kiddi

Gangur leiksins

Það var að vísu enginn Kani í liði heimamanna í kvöld. Þess í stað var Dani í byrjunarliðinu ásamt Finnanum Lindbom. Ánægjulegt að sjá Dani Koljanin aftur í búningi og heimamenn voru ljómandi vel stilltir í byrjun og settu fyrstu 11 stig leiksins. Gestirnir náðu hins vegar áttum eftir leikhlé Danna og svöruðu 11-0 byrjun KR-inga með 7-17 kafla. Staðan var 18-17 eftir einn leikhluta.

Leikurinn var í góðu jafnvægi frameftir öðrum leikhluta en gestirnir sigu framúr eftir því sem á leið. Sóknarleikur heimamanna stirðnaði allnokkuð í takt við ágæta vörn gestanna en mest munaði þó kannski um ótal sóknarfráköst gestanna þar sem skrímslið Ivan fór mikinn. Grindvíkingar fóru því með 9 stiga púða, 37-46, til klefa í hálfleik. Í ljósi þess að gestirnir tóku 31 fráköst á móti 15 í hálfleiknum má líta svo á að púðinn hefði sannarlega getað verið stærri.

Heimamenn mættu grimmir inn í síðari hálfleikinn og greina mátti meiri ákefð í varnarleik þeirra. Brilli og Darbo voru áberandi á sóknarhelmingi en gestirnir náðu þó að hanga á nokkurra stiga forystu allan leikhlutann. Naor og Kiddi settu góðar körfur fyrir sína menn og að leikhlutanum loknum var koddinn enn til staðar þó 2 stig hafi kvarnast úr honum í leikhlutanum, staðan 58-65.

Þó vörn gestanna hafi á köflum verið ágæt brotnaði hún illa af og til í þessum leik sem skilaði sér í galopnum sniðskotum fyrir KR-inga. Á slíku atriði hófst lokafjórðungurinn og heimamenn gengu á lagið, átu upp svo gott sem allan koddann og minnkuðu muninn í 64-65. Danni tók leikhlé á þessum tímapunkti og Kiddi Páls setti þrist strax eftir leikhléið. Það var hins vegar Dani Koljanin sem átti sviðið næstu mínúturnar og setti 11 stig í röð fyrir sína menn og allt í einu leiddu heimamenn 73-69! Þrátt fyrir þriggja stiga plástur frá Naor héldu KR-ingar áfram á góðri siglingu og Þorvaldur Orri setti næstu stig en hann kom með mikið og gott framlag af bekknum fyrir sína menn í kvöld. Brilli henti svo niður einum þristi í næstu sókn, staðan 78-72 og útlit fyrir að gestirnir væru búnir að missa þetta úr höndum sér. EC er hins vegar ágætis endakall og hann setti næstu 7 stig í leiknum og kom Grindavík aftur yfir, 78-79! Dani Koljanin var hins vegar ekkert hættur og smellti niður þristi í næstu sókn, EC endakall jafnaði þá bara hinum megin, staðan 81-81 og akkúrat skotklukka eftir af leiknum! Darbo átti lokaorðið í leiknum og fór vel á því, frábær leikur hjá honum og frábært skot hans af stuttu færi í blálokin færði KR-ingum kærkominn sigur. Lokatölur 83-81.

Menn leiksins

Darbo útnefnist klárlega sem maður leiksins, setti 20 stig í fáum skotum, tók 7 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og skoraði sigurkörfuna í lokin. Dani Koljanin verður líka að nefna hér, átti frábæran sprett fyrir sína menn sóknarlega í lokafjórðungnum og spilaði góða vörn eins og hann hefur kannski frekar verið þekktur fyrir hingað til.

Hjá gestunum væri eðlilegast að taka EC út, hann spilaði sem eðal endakall í lokin þó það hafi ekki dugað til að þessu sinni. Hann setti 24 stig, tók 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Kjarninn

KR-ingar höfðu aðeins sigrað einn leik af síðustu fimm fyrir leik kvöldsins og kom sá sigur á móti botnliðinu. Liðið varð svo fyrir niðurlægingu í Smáranum í síðasta leik og þrátt fyrir stór skörð í hópi þeirra hafa margfaldir Íslandsmeirarar síðustu ára engan áhuga á því að tapa með 48 stigum. Sigurinn í kvöld gegn vel mönnuðum Grindvíkingum er því kærkominn. Í spjalli við Helga Má eftir leik kom fram að liðið fer nú brátt að verða fullmannað, sennilega er stór Kani á leið til liðsins en m.v. frákastatölur leiksins er það kannski einmitt það sem vantar hjá KR. Lindbom virðist einnig geta heilmikið í körfu en hann á eftir að komast betur inn í leik liðsins eins og gengur og gerist. Það er því líkast til bjartari tíð framundan í Vesturbænum.

Grindvíkingar voru að þessu sinni hvorki í ökkla né eyra. Liðið átti fína spretti og höfðu nokkurra körfu forskot lengi vel í leiknum. Liðið slátraði frákastabaráttunni en hún endaði 28-50 Grindavík í vil. Á móti kom að töpuðu boltarnir voru 17 talsins, skotnýtingin ekkert sérstök, sóknarleikurinn hægur og stirður í lokin og varnarleikurinn upp og niður. Niðurstaðan varð naumt tap gegn KR í Vesturbænum sem hefur í gegnum tíðina kannski ekki þótt alsæmt – en að þessu sinni líður Grindvíkingum líklegast eins og þeir hafi misst 2 stig úr höndunum á lokametrunum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -