spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaDanielle frábær í sigri Stjörnunnar í Keflavík

Danielle frábær í sigri Stjörnunnar í Keflavík

Keflvíkingar tóku á móti Stjörnunni suður með sjó í kvöld en báðum liðum var spáð góðu gengi í vetur á árlegri spá fjölmiðla og forráðamanna liðanna í deildinni og var því von á hörkuleik.

Gangur leiks

Það var aðeins eitt lið á vellinum í byrjun leiks og voru það gestirnir úr Garðabænum. Þær komu virkilega einbeittar til leiks og náðu upp stóru forskoti í fyrsta leikhluta, 12-31. Stjörnukonur voru að setja niður skotin sín og nýtingin algjörlega til fyrirmyndar. Keflvíkingar virkuðu slegnar útaf laginu og náðu ekki taktinum fyrr en í öðrum leikhluta þar sem þeim tókst að saxa hægt og bítandi á muninn með elju og dugnaði. Það leit út fyrir að heimakonur næðu að fara inn í hálfleik með aðeins 5 stig til að brúa en Danielle Rodriguez setti niður 3ja stiga körfu um leið og flautan gall og lyfti stemmningunni á gestabekknum og muninum um leið í 8 stig. Hálfleikstölur 42-50.

Gestirnir náðu að halda mómentinu sín megin inn í síðari hálfleikinn og tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið. Varnarleikur Keflvíkinga var ekki uppá marga fiska og veit undirritaður að það er eitthvað sem Jón Guðmundsson þjálfari kærir sig ekki um og var sennilega ekki dagsskipunin. Stjörnustúlkur héldu áfram að setja stór skot og Danielle Rodriguez stýrði leik þeirra af stakri snilld. Munurinn fyrir síðasta leikhluta var 14 stig, 55-69.

Heimakonur gerðu allt hvað þær gátu til að snúa erfiðri stöðu sér í hag en 14 stiga gat fyrir síðustu 10 mínúturnar var einfaldlega of mikið á móti vel skipulögðu Stjörnuliði sem vann tilkomumikinn sigur á liðinu sem var spáð Íslandsmeistaratitlinum í einhhverjum spám fyrir tímabilið. Lokatölur 71-79.

Lykillinn

Danielle Rodriguez er ótrúlega verðmæt fyrir Stjörnuna og sýndi í kvöld að hún getur riðið baggamuninn á móti stóru liðunum. 36 stig, 11 stoðsendingar og 8 fráköst og stýrði leiknum eins og herforingi. 12 tapaðir boltar stinga í augað á tölfræðiskýrslunni en henni er fyrirgefið það á grundvelli annarra þátta.

Hittni gestanna utan að velli var lygileg á köflum og 88% þriggja stiga nýting Mariu Palacios (7/8) er náttúrulega ekki hægt. Hún hefði getað skotið úr bílnum á leiðinni suður á Reykjanesbrautinni og það eru allar líkur á því að það hefði steinlegið.

Stemmningin í Stjörnuliðinu var einfaldlega miklu betri en hjá heimakonum og allar voru þær klárar í slaginn frá fyrstu mínútu.

Hvað þýða úrslitin?

Faktískt séð risa statement sigur hjá Stjörnunni. Þó svo að þeim hafi verið spáð góðu gengi þá held ég að flestir hafi sett seðilinn á heimakonur í kvöld. Gott veganesti inn í næstu leiki.

Keflavík á talsvert í land ef draga má lærdóm af þessum leik. Varnarlega slakar og það er áhyggjuefni enda eitthvað sem hefur verið aðalsmerki liðsins síðustu ár að spila fasta og kraftmikla vörn.

Óþarfi að tíunda svo sem mikið meira um gildi úrslita. Fyrsta umferð og nóg eftir af mótinu.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

Fréttir
- Auglýsing -