Keflavík lagði Stjörnuna í dag í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna, 93-65. Keflavík því með yfirhöndina 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í úrslitin.
Nýliðarnir úr Garðabæ byrjuðu leik dagsins betur. Leiddu með 10 stigum eftir fyrsta fjórðung, 14-24 og 10 stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 36-46. Heimakonur í Keflavík mæta svo betur til leiks inn í seinni hálfleikinn. Vinna þriðja leikhlutann með 19 stigum og eru 9 yfir fyrir lokaleikhlutann, 64-55. Í þeim fjórða láta þær svo kné fylgja kviði og vinna leikinn að lokum gífurlega örugglega 93-65.
Atkvæðamestar fyrir Keflavík í leiknum voru Daniela Wallen með 27 stig, 12 fráköst, 5 stoðsendingar, 9 stolna bolta, Sara Rún Hinriksdóttir með 20 stig 5 fráköst og Birna Valgerður Benónýsdóttir einnig með 2ö stig og 5 fráköst.
Fyrir Stjörnuna var það Denia Davis-Stewart sem dró vagninn með 16 stigum og 13 fráköstum. Henni næst var Bo Guttormsdóttir-Frost með 14 stig og 3 fráköst.
Næsti leikur liðanna er komandi miðvikudag 1. maí í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ.