Ljósmyndarinn Daníel Rúnarsson fylgdist með látunum á mánudag þegar KR sló Snæfell út úr Poweradebikarnum. Kappinn segir að allt annað en troðfullt DHL-Höll í kvöld sé skandall þegar liðin mætast í Iceland Express deild karla!
,,Ég geri ráð fyrir að Hólmarar komi snargeðveikir til leiks í kvöld. Það sauð á þjálfaranum eftir leik og mér skilst að Hólmarar hafi ákveðið að fá útrás sína á liðsrútunni, henni hafi verið ýtt yfir snjóþunga heiðina. Hvorugt liðið átti skilið að tapa á mánudaginn og í raun átti bara einn maður sigurinn skilinn; Joshua Brown sem setti á svið eina eftirminnilegustu sýningu sem sést hefur á DHL-fjölunum. KR getur hinsvegar ekki stólað á aðra eins frammistöðu frá honum, það er ekki mannlegt. Þar fyrir utan spilaði hann allar 50 mínúturnar á mánudaginn. Þeir þurfa meira framlag frá mönnum eins og Finn Atla, sem átti ágæta spretti í leiknum en fór illa með of mörg færi á lokamínútunum,“ sagði Daníel sem býst við því að Quincy Hankins-Cole mæti tvíelfdur til leiks í kvöld.
,,Quincy Hankins-Cole sýnist mér vera með svipaða skapgerð og Íslandsvinurinn og stórmeistarinn Nick Bradford, eða Coach Bradford eins og hann er þekktur núna. Það ætti að þýða að hann verði erfiður viðureignar í kvöld. Menn með slíkt keppnisskap tapa sjaldan tvisvar í röð. Mér fannst Snæfellingarnir flottir á mánudaginn, fengu mjög myndarlegt framlag frá mönnum eins og Hafþóri og Ólafi. Með öðrum slíkum leik frá þeim ásamt aðeins meiru frá Pálma og Marquis, þá verður þetta erfitt fyrir KR,“ sagði Daníel og benti svo á aukaleikarana.
,,Ég held að leikurinn í kvöld velti svolítið á „aukaleikurunum“ hjá KR. Ef Joshua fær meiri aðstoð þá mun KR taka þetta, en ef hann þarf aftur að bera liðið uppi meirihluta leiksins þá hljóta Snæfellingar að finna leiðir til að stoppa í götin og knýja fram sigur. En leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. KR er að berjast við að klifra upp töfluna eftir dapra byrjun á mótinu, og Snæfellingar eru að berjast við að ná þessu mikilvæga fjórða sæti. Hvorugt lið hefur efni á því að tapa. Það verður því líklega barist til síðasta blóðdropa!“
,,Menn láta varla smá snjóföl stoppa sig þegar boðið er upp á bæði BBQ- og körfuboltaveislu í DHL – allt annað en troðfullt hús er skandall!"
Mynd/ Daníel Rúnarsson