Úrslitin á vesturströnd NBA deildarinnar hófust í nótt þar sem Dallas Mavericks tóku 1-0 forystu gegn Oklahoma City Thunder í leik þar sem stigunum hreinlega rigndi inn. Lokatölur í þessum fyrsta slag liðanna voru 121-112 Dallas í vil þar sem Þjóðverjinn Dirk Nowitzki setti upp flugeldasýningu með 48 stig! Þá bætti Dirk við 6 fráköstum, 4 stoðsendingum og 4 vörðum skotum.
Jason ,,The Jet“ Terry kom sem fyrr sterkur af bekknum hjá Dallas með 24 stig og unglambið eilífa Jason Kidd var rólegur í stigaskorinu með 3 stig en gaf 11 stoðsendingar. Hjá Oklahoma var Kevin Durant að finna taktinn með 40 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Næstur í röðinni var Russell Westbrook með 20 stig.
24 stig af 48 hjá Nowitzki komu af vítalínunni í nótt, kappinn setti nýtt met í úrslitakeppni NBA deildarinnar þar sem hann setti niður öll 24 vítin sín í leiknum, gamla metið átti Paul Pierce sem var 21 víti í röð í einum og sama leiknum. Dallas liðið setti niður 34 af 36 vítum sínum í leiknum. Þá er ekki hægt að kvarta undan annarri nýtingu hjá Dirk, 12 af 15 í 2ja stiga skotum og maðurinn sem henti niður 48 stigum tók ekki eitt þriggja stiga skot í leiknum! Þá hafa Mavericks unnið 17 leiki í röð í deildinni þetta tímabilið þar sem Dirk tekur 10 víti eða fleiri í leik.
Mynd/ Dirk stóð í ljósum logum í nótt