Í nánast lamaðri New York borg, vegna snjóstormsins Jónasar, var haldin 41. Battle of Brooklyn einvígi LIU háskólans gegn St. Francis. Þegar undirritaður spurði til vegar á háskólasvæði Long Island University og sagðist vera á leiðinni á leikinn, var flissað og hann álitinn bilaður að leggja leið sína þangað í þessari færð. Þetta var hins vegar ekkert sem víkingur frá Íslandi hefur ekki tæklað áður auk þess sem tækifæri til að sjá drengina okkar spila í útlandinu gerði lítið úr öllum hindrunum.
Martin Hermannsson fór fyrir LIU háskólanum í upphafi leiks og skoraði fyrstu 5 stig sinna manna, en St. Francis menn gáfu ekkert eftir. Munurinn milli liðanna í fyrri hálfleik varð aldrei meiri en 5 stig. Varnarleikur einkenndi leik beggja liða og bar stigaskor fyrri hálfleiks þess einkenni en honum lauk 25-30 fyrir heimamönnum í LIU.
Frábær byrjun í seinni hálfleik hjá LIU jók muninn í 10 stig eftir eina og hálfa mínútu. Þá bitu St. Francis liðar í skjaldarrendur, hertu upp varnarleikinn og héldu LIU stigalausum næstu 5-6 mínúturnar á meðan þeir skorðuðu 11 stig sjálfir.
Leikurinn orðinn jafn að nýju og útlit fyrir spennandi lokamínútur. Sóknarleikur LIU hins vegar féll að miklu leyti saman og áttu þeir erfitt með að koma stigum á töfluna þegar líða tók á seinni hálfleik.
Þegar rúm mínúta var eftir af leiknum í stöðunni 59-49 fyrir gestunum reyndu LIU liðar erfiðar körfur til að minnka muninn en allt kom fyrir ekki.
St. Francis lokaði sigrinum, 64-49 og ræður nú yfir Brooklyn eins og þeir sögðu sjálfir eftir leikinn.
Tyreek Jewell var stigahæstur fyrir St. Francis með 13 stig og 4 fráköst, en Amdy Fall bætti við 11 stigum, 11 fráköstum og var svaðalegur í vörn með 4 varin skot. Hjá LIU var Jerome Frink stigahæstur með 16 stig og 7 fráköst en Joel Hernandez kom fast á eftir með 11 stig og 11 fráköst.
Dagur Kár Jónsson skoraði ekkert í leiknum en var með 2 stoðsendingar og 1 frákast á 13 mínútum. Martin Hermannsson átti erfitt uppdráttar í sóknarleiknum í seinni hálfleik en lauk samt sem áður leik með 11 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Gunnar Ólafsson er meiddur á nára og lék því ekkert með í leiknum í gær.