Dagur Kár hefur spilað frábærlega með Grindavík að undanförnu. Hann var eðlilega kátur að leikslokum.
Þetta var algerlega sturlaður leikur! Hversu gaman er að spila svona leiki?
Það er bara alveg ótrúlega gaman – í raun alveg ólýsanlegt! Stemmningin rosaleg, ég efast um að það hafi komist ein hræða í viðbót inn í húsið og að spila fyrir framan þessa áhorfendur er algerlega geggjað.
Þú byrjaðir sterkt í leiknum og ekki annað að sjá að þú sért orðinn það reyndur kappi að stressið er ekkert að trufla þig?
Ég ætla nú ekki að fara að hljóma eins og einhver kempa en þegar þú ert inn á vellinum þá gleymist allt þannig og þú ert bara þarna að spila körfubolta. Þetta er alltaf sama íþrótt, bara fimm á móti fimm og maður heldur sér bara niðri á jörðinni þótt mikið sé í gangi í kring.
Kiddi Friðriks talaði mjög ákveðið um hálfgert kraftaverk eftir sigur ykkar í síðasta leik í Vesturbænum, hvað hefuru að segja um það?
Já…ég heyrði það ekki en Kiddi Gun má bara éta sokk. Hann sagði að okkur yrði sópað út og að Keflavík-KR yrði úrslitaeinvígið..hann má bara éta sokk…það er bara þannig.
Jájá…ég hafði satt best að segja ekki mikla trú á ykkur heldur og ætti skilið að hjálpa Kidda með sokkinn…
Jájá, það höfðu það fáir, sérstaklega eftir að við lendum 2-0 undir. Fólk hélt að við ættum ekki séns. En nú eftir fjóra leiki þá höfum við verið betri í þremur þeirra þannig að við hlökkum bara til sunnudagsins og við ætlum að fara og vinna titil. Það er ekkert flóknara!
Kári Viðarsson