spot_img
HomeFréttirDagný Lísa eftir fjögur ár með Niagra Purple Eagles "Ofboðslega þakklát fyrir...

Dagný Lísa eftir fjögur ár með Niagra Purple Eagles “Ofboðslega þakklát fyrir þennan tíma”

Fyrir fjórum árum ákvað framherjinn Dagný Lísa Davíðsdóttir að gangast til liðs við Niagra Purple Eagles. Purple Eagles leika í Metro Atlantic hluta efstu deildar háskólaboltans í Bandaríkjunum.

Dagný lék á sínum tíma upp yngri flokka og með meistaraflokki Hamars. Fór hún tveimur árum áður út í miðskóla í Bandaríkjunum áður en hún skrifaði undir hjá Purple Eagles.

Karfan hafði samband við Dagnýju og spurði hana út í háskólaboltann.

Hvernig fannst þér þetta fjórða ár ganga með Purple Eagles?

“Mér fannst ganga mjög vel. Nú var þetta fjórða árið mitt í Niagara og náði ég jafnt og þétt að eignast stærri sess í liðinu þannig það var mjög ánægjulegt hvað það gekk vel á þessu tímabili. Liðinu gekk mjög vel í byrjun tímabilsins, en svo misstum við aðeins taktinn undir lok tímabilsins. Hins vegar var þetta mjög gott ár hjá okkur yfirhöfuð og það verður spennandi að fylgjast með stelpunum á næsta tímabili”

Er mikill munur á lífinu í Lewiston og hér heima?

“Það er ákveðinn smábæjarfílingur í Lewiston með mörgum litlum veitingastöðum og antíkbúðum, þannig það er mjög viðkunnalegt þarna. Ég er sjálf frá Hveragerði þannig það truflar mig alls ekkert að búa í minni bæ á þessum Ameríska mælikvarða, en það búa samt um 30 þúsund manns í Lewiston þannig þetta er alls ekkert jafn lítið og ég var búin að ímynda mér. Annars var einn stærsti munurinn sá að skólinn var bara 5 mín frá landamærum Kanada þannig við stelpurnar fórum oft “til útlanda” á frídögum”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?

“Ég hugsa að helsti munurinn sem ég hafi þurft að venjast þegar ég fór að spila úti var hvað þjálfararnir eru mikið með puttana í öllu. Það var allt útpælt á vellinum og maður gerði voða fátt án þess að vera búinn að fá leyfi eða tilmæli til þess. Svo eru þjálfarateymin miklu stærri úti, þannig það var mikill munur fyrir mig að fara úr því að spila fyrir einn þjálfara hér, yfir í að hlusta á 4 mismunandi þjálfara samtímis úti. Hins vegar er fátt sem þeim yfirsést, þannig það er gríðarleg hjálp í því að hafa svona marga til þess að fylgjast með og hjálpa manni að spila sem allra best”

Er mikill munur á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Mér fannst upphaflega skrítið að hugsa til þess hvað tímabilið var stutt úti, en ég komst fljótt að því að það er á margan hátt erfiðara. Við vorum stundum að spila allt að 5 leiki á 10 dögum þannig það var oft alls ekki mikil hvíld á milli leikja. Það gerði manni örlítið erfiðara fyrir í náminu að missa oft marga daga í röð úr skólanum þegar við vorum að ferðast mikið, en það hjálpaði ótrúlega hvað prófessorarnir voru allir hjálpsamir og skilningsríkir og við auðvitað með æðislegt fólk að vinna með liðinu til þess að hjálpa okkur í náminu. Annars hættir tímabilið eiginlega aldrei úti, því það er ekkert verið að slá af þó svo við séum ekki að spila leiki, og erum að æfa meira og minna allt árið”

Hvað er svona það helsta sem þú tekur frá því að hafa verið sex ár úti?

“Ég var auðvitað mjög ung þegar ég fór fyrst út í menntaskóla, þannig ég tók út þroska í útlöndum sem flestir eru að gera hérna á menntaskólaárunum. Ég er hins vegar alveg ofboðslega þakklát fyrir þennan tíma úti og allt sem ég hef lært bæði í námi, körfunni, og svo með því að kynnast fólki hvaðanæva að úr heiminum. Ég hef lært alveg ofboðslega mikið af því að þurfa að spjara mig úti og sömuleiðis lært rosa mikið inn á sjálfa mig. Þetta hefur verið mjög þroskandi tími fyrir mig á allan hátt”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára skólann?

“Við töpuðum í úrslitakeppninni daginn áður en allt var blásið af. Það voru auðvitað mikil vonbrigði að tapa, en á sama tíma þá hugsa ég að það hafi verið betra að fá raunverulegan endi á tímabilið í staðinn fyrir að ímynda sér hvað hefði getað orðið. Annars var þessi síðasti leikur einn sá besti sem við spiluðum allt tímabilið þannig þetta var alls ekki slæm leið til þess að enda árið. Svo var þessi leikur líka á móti deildarmeisturunum þannig það hefði verið ansi fúlt að slá þær út úr úrslitakeppninni, en fá svo ekki tækifæri á því að vinna titilinn”

Nú varst þú að klára þitt nám þitt þarna úti, ertu eitthvað búin að ákveða hvað þú gerir í framhaldinu og hvar þú ætlar að spila?

“Það vill svo til að ég á eitt ár eftir af ‘eligibility’ af því ég var meidd á 2. ári, þannig ég ákvað að skipta um skóla og fara annað til þess að spila síðasta árið mitt. Ég var að tala við fjölmarga skóla víðsvegar um Bandaríkin, en ákvað að lokum að spila með University of Wyoming í Mountain West deildinni á næsta ári. Ég hef verið á Austurströndinni síðustu sex árin þannig ég er mjög spennt fyrir því að breyta aðeins til og fá að kynnast nýju landsvæði í Bandaríkjunum, samhliða áframhaldandi námi og nýju liði”

Fréttir
- Auglýsing -