Ísland tapaði í gær fyrri leik sínum í þessum glugga undankeppni EuroBasket 2021 fyrir Slóveníu. Seinni leikur liðsins í sóttvarnarbúbblunni í Grikklandi er síðan á morgun gegn Búlgaríu.
Karfan setti sig í samband við leikmann liðsins, Dagbjörtu Dögg Karlsdóttur og spurði hana út í tapið í gær, aðstæður í Grikklandi, að vera að spila í skugga Covid-19 smita og seinni leikinn á morgun gegn Búlgaríu.
Hvað var að gerast hjá ykkur í gær, afhverju tapið þið leiknum?
“Ég held að leikurinn hafi tapast fyrst og fremst vegna of margra hraðaupphlaupa eftir varnarfráköst hjá Slóveníu og við seinar aftur í vörn. Allt of mörg stig sem komu í kjölfar þess. Hefðum við náð að stoppa hraðaupphlaupin fyrr í leiknum er ég viss um að leikurinn hefði þróast með öðrum hætti”
Er eitthvað gott sem þið takið út úr leiknum?
“Já fullt gott hægt að taka úr þessum leik. Ég myndi segja að það væri styrkleikamerki hjá íslenska liðinu hvernig við komum sterkari inn í seinni hálfleik þrátt fyrir að vera undir í hálfleik, enda ætluðum við okkur að vinna þennan leik. Við framkvæmdum það sem um var talað í hálfleik varðandi það að stoppa þessi hraðaupphlaup og létum þær finna fyrir því í vörninni á hálfum velli. Auk þess voru við óhræddar við að taka af skarið í sókninni. Svo er auðvitað alltaf góð reynsla að fá að spila á móti svona hörkuliði líkt og Slóveníu”
Mikið verið rætt um Covid-19 í búbblunni, hvað finnst þér um að FIBA hafi látið þessa leiki fara fram?
“Það er erfitt að segja hvað sé rétt eða rangt hjá FIBA að gera í þessari stöðu. Ég persónulega reyni að láta þetta ástand ekki hafa of mikil áhrif mig þó að það geri það auðvitað að vissu leiti. Ég held að ég tali fyrir marga þegar ég segist hafa hugsað um það nokkrum sinnum, “hvað ef eitthvað gerist”, þrátt fyrir að vera orðin banhungruð í að spila körfubolta og hvað þá fyrir landið mitt. Það góða við það að spila þessi leiki er að ég sóna einhvern veginn alveg út, gleymi ástandinu sem er í gangi og nýt þess til hins ýtrasta að gera það sem ég elska, að spila körfubolta”
Hvernig fer um liðið í Heraklion?
“Við höfum það gott hérna úti. Við erum í góðu yfirlæti á hótelinu, með sér herbergi, góðan mat og ekki verra að sólin lét aðeins sjá sig eftir alla rigninguna sem hefur verið hér síðustu daga”
Seinni leikurinn á morgun, hafið þið náð að skoða Búlgaríu eitthvað?
“Við horfðum á leikinn þeirra á fimmtudaginn á móti Grikkjum og búnar að fá klippur af þeim frá þjálfurunum. Þær eru margar hverjar snöggar á fótunum, vilja spila hraðann bolta og spila stífa vörn. Planið okkar er að reyna nýta okkur það með því að refsa þeim sóknarmegin ef þær ætla yfirdekka okkur stíft. Annars erum við líka að hugsa um okkur sjálfar og reyna slípa okkar eigin leik bæði sóknar- og varnarlega. Taka það góða úr síðasta leik og byggja ofan á það, sem og að laga það sem betur mátti fara. Mjög mikilvægt t.a.m. að við verðum snöggar til baka þar sem Búlgaría vill ýta boltanum hratt upp völlinn”
Hvað þarf Ísland að gera til þess að ná góðum úrslitum?
“Leikmenn og teymið í heild sinni þarf að mæta klárt til leiks og með hausinn rétt skrúfaðan á. Við ætlum okkur að vinna þennan leik með því að sýna baráttu, gleði og skilja hreinlega allt eftir á gólfinu. Það er alveg klárt að við ætlum að njóta þess að spila þennan leik, því það er alls ekki sjálfgefið á tímum sem þessum að fá að spila körfubolta”